Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[13:49]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið áhrifamikið að fylgjast með þeirri vakningu sem hefur átt sér stað meðal kvenna í Íran í kjölfar þess að svonefnd siðgæðislögregla þar í landi gekk svo hart fram gagnvart ungri kúrdískri konu, Mahsa Amini, að hún lést. Um allt land hafa konur risið upp og það er mikilvægt að þær finni stuðning frá samfélagi þjóðanna í mannréttindabaráttu sinni þar sem þær eiga við að etja erfiða blöndu og eitraða af trúræði og feðraveldi. Þar leggja þær sig oft í mikla hættu og sýna gríðarlegt hugrekki og það er skylda okkar að láta þær finna fyrir stuðningi okkar. Þar eigum við Íslendingar að tala hátt og skýrt og taka undanbragðalaust afstöðu gegn hvers kyns mannréttindabrotum og um það erum við flest sammála, hygg ég. Þótt við tökumst vissulega á um margt á þessum vinnustað höfum við borið gæfu til að halda á lofti nokkuð sameiginlegum gildum á alþjóðavettvangi. Við tölum fyrir mannréttindum og frelsi, jafnrétti og lýðræði. Þetta eru þær áherslur sem lítil og herlaus þjóð hefur fram að færa á alþjóðavettvangi, í veröld þar sem aðeins fjórðungur ríkja byggir á lýðræði eins og við þekkjum það, og þó að hin daglega pólitík gefi mér ekki endilega mjög gott tækifæri til að hrósa ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þá er ástæða til að gera undantekningu núna því að þegar kemur að þessum málum hefur hæstv. ráðherra verið skýr og góður málsvari og fór ágætlega yfir þær aðgerðir sem Ísland er þátttakandi í. Það væri að vísu ástæða til að bæta við og fordæma sérstakan stuðning Írans við Rússa í innrás þeirra í Úkraínu en þegar kemur að þessum mannréttindabrotum og þessari byltingu, köllum hana það, það sem á sér stað í Íran nú, þá fer afstaða Íslands ekki milli mála og á ekki að fara á milli mála.