Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:03]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Á Íslandi er mesta kynjajafnrétti í heimi. Það er mælt og tekið út og við trónum á toppnum ár eftir ár. Samt er fullu jafnrétti ekki náð hér. Við viljum gera betur. Í Íran búa konur hins vegar við mikið ofríki og ofbeldi og kúgun. Það er óumflýjanlegur hluti tilveru þeirra. Það er því mikilvægt að Ísland skuli framfylgja þvingunaraðgerðum ESB gagnvart Íran vegna ábyrgðar íranskra stjórnvalda á dauða Mahsa Amini og ofsóknum gegn friðsömum mótmælendum. Ofbeldi gegn konum er eitt útbreiddasta mannréttindabrot í heiminum. Við förum ekki varhluta af því hér. Ofbeldið er margs konar: Konum er nauðgað, þær eru barðar, seldar, brenndar og vanvirtar. Þær eru myrtar í nafni heiðurs. Þær eru réttindalausar og kerfisbundið ómenntaðar og þær eru handteknar og myrtar fyrir að hylja ekki ökkla sína eða hár sitt. En ofbeldið og kúgunin sem konur verða fyrir alls staðar í heiminum er á sumum svæðum útbreidd og viðurkennd siðvenja, jafnvel bundið í lög. Það er sorgleg staðreynd og okkur mjög framandi.

Það er tilefni til að hrósa hæstv. utanríkisráðherra og utanríkisþjónustunni fyrir framgönguna í þessu máli. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda, aðgerðir hæstv. utanríkisráðherra, eru í samræmi við utanríkisstefnu okkar Íslendinga þar sem mannréttindi eru einn hornsteina. Í samræmi við hana vinnur Ísland að því að vernda og efla mannréttindi í heiminum. Það er gríðarlega mikilvægt. Ég þakka málshefjanda fyrir framtakið og hvet hæstv. utanríkisráðherra til að halda áfram að berjast fyrir réttindum kvenna í Íran, til að styðja í orðum og gjörðum við ofsóttar og kúgaðar systur okkar um allan heim í minnkandi veröld, til þess að berjast fyrir því að íranska konur geti bókstaflega um frjálst höfuð strokið. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)