Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:05]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þessa umræðu hér í dag og sérstaklega hv. málshefjanda. Bókstafstrúarmenn allra trúarbragða eiga a.m.k. eitt sameiginlegt: Þeir kúga konur og berjast gegn frelsi kvenna til að ráða eigin lífi og líkama. Klerkaveldið er því miður víðar en í Íran. Mótmælin þar snúast um tilverurétt kvenna en þau snúast auðvitað líka um lýðræðið og hvernig það er fótum troðið af klerkastjórninni í Teheran. Til að skilja hvaðan þetta ofbeldi kemur er gott að beina sjónum að, og mig langar að gera það á þessum örstutta tíma, stöðu Írans í samfélagi þjóða og stöðu Írans sem hernaðarlegs stórveldis í Miðausturlöndum. Þar hefur klerkastjórnin m.a. beitt sér á undanförnum árum og áratugum í borgarastyrjöldinni í Jemen, borgarastyrjöldinni í Sýrlandi, í Líbanon, bæði þegar þar hafa geisað stríð og einnig núna þegar Líbanon virðist því miður vera á barmi hengiflugs. Nýjustu fréttir af því hvernig stjórnin í Teheran hefur beitt sér eru af sölu vopna til Rússa sem síðan er beitt gegn Úkraínu. Og hvers vegna segi ég þetta? Vegna þess að stjórnir sem eiga tilverugrundvöll sinn á því að beita ofbeldi, hvort sem það er í heimalandi sínu, með vopnasölu eða svokölluðum proxy-stríðum í öðrum löndum, byggja allt sitt á beitingu ofbeldis. Þar verða konur og börn alltaf fyrstu fórnarlömbin.