Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:11]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég vil byrja á að fagna þessari umræðu um mótmælaölduna sem nú stendur yfir í Íran. Mótmælin hafa verið kennd við unga konu að nafni Jina Amini. Nafn þessarar 22 ára gömlu stúlku sem var myrt af siðferðislögreglu íranska ríkisins fyrir klæðaburð sinn hefur orðið að tákni fyrir frelsisbaráttu kvenna, ekki aðeins í Íran heldur á heimsvísu. Það sem stundum gleymist í umræðunni, því miður, en er þó ekki aukaatriði, er að Amini var af kúrdískum ættum og hét þessu kúrdíska nafni, Jina Amini, þó að það hafi ekki mátt skrá og því hafi hún víða verið ávörpuð Mahsa. Íranska ríkisstjórnin hefur kúgað Kúrda í Íran um áratugabil, m.a. með því að gera lagalega skráningu kúrdískra nafna óheimila og er mikilvægt að halda því ávallt til haga í þessari umræðu.

Það er auðvelt að upplifa máttleysi gagnvart þvílíkum mannréttindabrotum sem eiga sér stað í landi sem við náum illa til. Við hér á Alþingi og ríkisstjórn höfum þó ýmsar leiðir í krafti valdastöðu okkar til að gera gagn í baráttunni gegn kúgun og ofbeldi alræðisstjórnvalda í Íran. Mikilvægustu aðgerðirnar lúta að beitingu sértækra þvingunaraðgerða. Það er auðvitað vel að við skulum taka þátt í aðgerðum Evrópusambandsins gegn Íran en það er þó í besta falli gagnrýnivert að það skuli vera á þeim forsendum að Íran styðji Rússland í árásum sínum á Úkraínu frekar en vegna þess að þarna er heilu samfélagi haldið í heljargreipum mannréttindabrota gegn almennum borgurum. Við getum beitt okkar rödd til að krefjast þess að Sameinuðu þjóðirnar komi á laggirnar sjálfstæðri rannsókn á brotum írönsku ríkisstjórnarinnar til að tryggja að stjórnvöld þar í landi verði gerð ábyrg gjörða sinna á alþjóðavettvangi. Þá getur íslenska ríkið boðið vinaþjóðum sínum í Evrópu í áframhaldandi umræðu um ástandið og þau mannréttindabrot sem eru að eiga sér stað. Það skiptir máli. Vanmetum ekki röddina sem við höfum og hættum ekki að mótmæla.