Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

Staðan í Íran.

[14:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og aftur er tilefni til þess líka að þakka fyrir þá þverpólitísku samstöðu um mál sem okkur þykja sjálfsögð innst inni, en eru það alls ekki og það er heldur alls ekkert alltaf sjálfsagt að um þau ríki þverpólitísk samstaða. Hv. þm. Sigmar Guðmundsson nefndi hér að við ættum að spyrja okkur sjálf þessara spurninga og það var áhugavert að hlusta á það vegna þess að ég geri það svo oft, bæði í þessu máli og öðrum, hvort sem það er staðan í Úkraínu og þegar fólk er að taka ákvarðanir um eigið líf og líf barna sinna eða foreldra eða hvort við myndum sjálf ganga út og mótmæla ef það myndi blasa við okkur sem blasir við þeim. Þá er líka gott að hugsa: Í hvaða stöðu erum við hér? Í hvaða stöðu er ég í mínu embætti og í hvaða stöðu erum við hér í þessu örugga, friðsæla, fallega og sterka samfélagi? Hvað getum við gert og hvers er hægt að krefjast af okkur? Hvers krefjumst við sjálf af okkur? Hvað geta önnur lönd gert eða aðrir einstaklingar sem ekki hafa réttinn eða getuna eða plássið til að gera það sem við getum gert? Þess vegna eigum við að tala hátt. Þess vegna eigum við að tala hátt alls staðar og gera það. Stundum getur Ísland líka sagt hluti sem er erfiðara fyrir stærri þjóðir að segja. Við eigum að leita leiða til að gera það.

Það er viðbúið að gripið verði til frekari aðgerða, vegna þess sem hv. þm. Logi Einarsson nefndi varðandi þvingunaraðgerðir vegna drónanotkunar í Úkraínu. Það er alveg skýrt að þær þvingunaraðgerðir sem við höfum þegar farið í eru vegna mannréttindabrota en ekki vegna þess sem er að gerast í Úkraínu. Við erum meðvituð um umræðuna innan Evrópusambandsins um frekari þvingunaraðgerðir gegn Íran vegna aukinna mannréttindabrota íranskra yfirvalda og mögulega verða þær samþykktar á næstu dögum eða vikum (Forseti hringir.) og við munum áfram standa að þeim og innleiða þær. — Ég þakka aftur fyrir góða umræðu.