Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi.

381. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi. Frumvarpið er á þingskjali 399, mál nr. 381. Tilefni þessa frumvarps eru athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert vegna þeirra skilyrða sem gilda um búsetu stjórnenda í lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um vátryggingastarfsemi. Efni frumvarpsins á sér nokkuð langan aðdraganda, eða allt frá árinu 2014, og tel ég rétt að víkja stuttlega að forsögu málsins og bendi jafnframt á að nánari umfjöllun um málsatvik og rök stjórnvalda er að finna í 2. kafla greinargerðar frumvarpsins.

Eftirlitsstofnun EFTA er með tvö mál í gangi gegn íslenskum stjórnvöldum sem varða reglur um búsetuskilyrði stjórnenda. Annað málið, sem hófst árið 2014, varðar ýmis lög á sviði félagaréttar og einnig lög um vátryggingastarfsemi. Hitt málið sem er frá árinu 2019 varðar lög um fjármálafyrirtæki. Á árunum 2017 og 2019 voru samþykkt lög á sviði félagaréttar sem ætlað var að bregðast við athugasemdum ESA um búsetuskilyrði í þeim lögum. Í kjölfar lagabreytinganna lýsti ESA því hins vegar yfir með rökstuddu áliti, þrátt fyrir að hafa ekki gert athugasemdir við frumvörpin í aðdraganda lagasetningarinnar, að ekki væri gengið nægilega langt í breytingum á búsetuskilyrðum. Það var því mat ESA að fella þyrfti brott allar takmarkanir á búsetuskilyrðum, einnig hjá ríkisborgurum í ríkjum utan EES-svæðisins, sem búsettir væru utan EES-svæðisins.

Fjármála- og efnahagsráðuneytið í samstarfi við menningar- og viðskiptaráðuneytið og ráðgjafa þess hefur unnið að því að greina réttarstöðuna að teknu tilliti til skuldbindinga Íslands samkvæmt EES-samningnum. Niðurstaða þeirrar vinnu er sú að íslensk stjórnvöld hafi gengið nægilega langt í lagabreytingum um búsetuskilyrði stjórnenda með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á félagaréttarlöggjöfinni og þeim breytingum sem fram koma í þessu frumvarpi.

Breytingar þessa frumvarps, sem ég mun víkja að síðar í ræðu minni, eru sams konar og þær breytingar sem gerðar hafa verið á lögum á sviði félagaréttar. Niðurstaða greiningar stjórnvalda og réttarstöðu Íslands byggist á ýmsum þáttum, þar á meðal forsendum dóms EFTA-dómstólsins í máli ESA gegn Noregi frá árinu 2021 þar sem reyndi á sambærilegar kröfur um búsetuskilyrði í norskum lögum. Íslensk stjórnvöld tóku undir málatilbúnað Noregs í því máli með því að skila inn skriflegum athugasemdum og taka þátt í munnlegum málflutningi. Að mati íslenskra stjórnvalda er réttlætanlegt og nauðsynlegt að gera ríkari kröfur til ríkisborgara í ríkjum utan EES-svæðisins sem jafnframt eru búsettir þar en ríkisborgara ríkja á EES-svæðinu. Er það m.a. talið nauðsynlegt til að unnt sé að framfylgja reglum um varnir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og vegna þjóðaröryggismála.

Virðulegi forseti. Ef ég vík nú að efni frumvarpsins er um að ræða tvær samkynja breytingar á tveimur lögum á fjármálamarkaði. Lagt er til að búsetuskilyrði stjórnenda verði rýmkuð með þeim hætti að ríkisborgarar EES og EFTA-ríkja ásamt Færeyingum verði undanþegnir búsetuskilyrðum. Undanþágan mun gilda um stjórnarmenn og framkvæmdastjóra í fjármálafyrirtækjum, vátryggingafélögum, rekstraraðilum sérhæfðra sjóða, rekstrarfélögum verðbréfasjóða og greiðslustofnunum. Ríkisborgarar þessara ríkja munu því ekki þurfa að sækja um undanþágu til fjármálaeftirlits vegna búsetu utan EES-svæðisins til að geta verið stjórnarmenn og framkvæmdastjórar í framangreindum fyrirtækjum og félögum á fjármálamarkaði. Þeir munu þó, líkt og allir aðrir stjórnarmenn og framkvæmdastjórar, þurfa að uppfylla hæfisskilyrði viðeigandi laga sem metin eru með ítarlegu hæfismati fjármálaeftirlitsins. Enn verða í gildi strangari búsetuskilyrði hjá ríkisborgurum utan ríkja Evrópska efnahagssvæðisins, enda séu þeir ekki búsettir á Evrópska efnahagssvæðinu. Varðandi athugun ESA er ekki útséð hvort stofnunin muni vísa málunum tveimur til EFTA-dómstólsins en það mun væntanlega koma í ljós á næstu mánuðum.

Virðulegi forseti. Líkt og ég hef hér rakið er það mat stjórnvalda að efni þessa frumvarps sé fullnægjandi til að laga íslenskan rétt að skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar að aflokinni þessari umræðu og svo til 2. umr. hér í þinginu.