Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:21]
Horfa

Flm. (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hefði kannski átt að tala skýrar í svari mínu hér áðan vegna þess að ég tel að enn eitt tækið til að tryggja forgangsröðunina sé, eins og hér segir, skilgreining á alþjónustu samkvæmt lögum. Ég ætla að ganga svo langt að segja að sem löggjafi getum við mjög auðveldlega skilgreint orkuskiptin með lagalegum hætti, þ.e. hvernig við viljum gera það innan íslensks lagaramma og þannig meitlað í stein hver forgangsröðun íslenskra stjórnvalda sé þegar kemur að orkuskiptunum. Líklega eru 20 ár liðin síðan við innleiddum orkutilskipun Evrópusambandsins hér í þessum sal og þá var ákveðið að nýta ekki undanþáguheimild sem hægt er að nýta þegar verið er að innleiða gerðirnar frá Evrópusambandinu í samræmi við EES-samninginn. Við fórum þá leið, og var drjúgur meiri hluti fyrir því hér á hinu háa Alþingi, að innleiða orkupakkann — ég man ekki hvort við getum kallað hann þann fyrsta — með þessum hætti og taka t.d. upp samkeppni í dreifingunni. Það má auðvitað orða það þannig að við sitjum við uppi með það að einhverju leyti og getum við deilt um hvort það hafi verið gæfuspor eða ekki. En þetta er ramminn sem við erum að vinna innan. Ég er þeirrar skoðunar að innan þess ramma geti íslensk stjórnvöld gengið mjög langt í því að gæta grundvallaröryggishagsmuna landsins og raforkuöryggi eru grundvallaröryggishagsmunir. Ég held að enginn geti mælt því í mót að með því að haga lagasmíð okkar þannig að við séum með það markmið alveg á hreinu að við séum að tryggja raforkuöryggi, sem eru grundvallaröryggishagsmunir, þá séu okkur nokkurn veginn allir vegir færir.