Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

breytingar á raforkulögum til að tryggja raforkuöryggi almennings o.fl.

89. mál
[15:30]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Málið er þetta: Uppruni 87% af raforku á Íslandi er jarðefnaeldsneyti og kjarnorka. Ég myndi veðja á að sú raforka sem hv. þingmaður notar í sínu daglega lífi sé upprunnin úr kjarnorku eða kolum. Það er eiginlega alveg klárt mál. Hann er ekki inni í þessum 13%. Það skiptir engu máli hvað raforkustjóri segir, það er búið að selja uppruna orkunnar, búið að selja grænu orkuna til Evrópu. Það er staðreynd málsins. Ég veit að Íslendingar vilja ekki horfa á þetta en fyrirtækin í Evrópu sem eru að kaupa þessi bréf, syndaaflausnina — það eru engir asnar sem eru að gera það. Þau láta ekki plata sig, þau nota þetta í sinni markaðssetningu. Hins vegar á Ísland að banna þetta, það á banna þessa sölu upprunavottorða vegna þess að Ísland er ekki tengt með sæstreng, við erum ekki að selja inn á raforkumarkaðinn og þetta sýnir delluna í kringum þriðja orkupakkann að við séum að innleiða hérna lög um raforkuviðskipti yfir landamæri þegar það eru engin raforkuviðskipti yfir landamæri. Við erum eyja í Norður-Atlantshafi og að við skulum vera að tengja okkur þessu bixi sem er orðið gjaldþrota í ESB er algjört hneyksli, svo það liggi fyrir. Ég tel að öll umræða um orkuskiptin, um græna Ísland, um að við ætlum að fremst í heimi í orkuskiptum og loftslagsbreytingum og öllu þessu, byggi á ákveðinni hræsni og grundvöllurinn að þessari hræsni er sá ljóður sem hv. þingmaður telur vera hér á, að við séum að selja uppruna raforku okkar. Það er nánast eins og að selja uppruna Íslendinga í orkumálum.

Ég tel líka, þegar við erum að tala um þessi mál, að við verðum að horfast í augu við staðreyndir. Það er ekki hægt að gera það öðruvísi. Þessi tillaga hér sýnir að við erum háð þriðja orkupakkanum, við erum háð orkustefnu Evrópusambandsins og ég hefði haldið það að hv. þingmaður, sem kemur úr Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, væri á móti þessu (Forseti hringir.) og styddi fullveldi Íslands í raforkumálum.

Spurning mín er bara sú: Hvar stendur hann varðandi fullveldi Íslands í raforkumálum og varðandi orkuöryggi og græna orku með hliðsjón af orkustefnu Evrópusambandsins?