Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[15:49]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, bann við blóðmerahaldi. Það er gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins sem er á frumvarpinu ásamt hv. þm. Valgerði Árnadóttur. Eins og allir vita þá stend ég ekki hér í fyrsta sinn til að berjast gegn því sem ég hef talið vera algjörlega óásættanlega búgrein og óásættanlega meðferð á fylfullum hryssum.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„ Á eftir 2. mgr. 20. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi: Bannað er að taka blóð úr fylfullum merum í þeim tilgangi að selja það eða vinna úr því hormónið PMSG …“ — Með leyfi forseta þá ætla ég að sletta erlenda heitinu sem skammstöfunin byggir á, „pregnant mare serum gonadotropin“, sem ég veit varla nokkuð skapaðan hlut hvað þýðir en engu að síður þá kom ég því frá mér. Samkvæmt frumvarpinu má sem sagt hvorki framleiða þetta hormón né nokkra aðra vöru úr því til sölu. Frumvarpið leggur einfaldlega bann við því að græða á blóði fylfullra mera.

2. gr. frumvarpsins:

„Eftirfarandi breytingar verði á 45. gr. laganna í a-lið á eftir c-lið 1. mgr. komi nýr stafliður, svohljóðandi: Hann brýtur gegn bannákvæðum skv. 20. gr.. B. 6. mgr. fellur niður 3. gr. hljóðar svo:

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Frumvarp þetta var lagt fram á 151. og 152. löggjafarþingi,15. mál, en náði ekki fram að ganga.“

Getið þið nú af hverju það náði ekki fram að ganga. Hvernig stendur á því að frumvarp sem er nánast með fordæmalausum fjölda umsagna og hefur í rauninni haft athygli úti um allan heim eftir að upp komst um meðferð á íslenskum fylfullum hryssum var bremsað fast í hv. atvinnuveganefnd? Á síðasta löggjafarþingi, því 152., bárust 137 umsagnir, hvorki fleiri né færri, vegna frumvarpsins. Það heyrir svo sannarlega til undantekninga, eins og ég sagði áður, að þingmál fái fleiri en svona 10–15 umsagnir að meðaltali. Það er talið nokkuð gott, hvað þá ef það eru þingmannamál.

Einnig barst Alþingi undirskriftalisti þar sem 6.380 manns kölluðu eftir því að blóðmerahald yrði bannað. Meðal umsagnaraðila voru dýraverndunarsamtök, bæði innlend og alþjóðleg, dýralæknar, stjórnvöld, blóðmerabændur, almennir borgarar og fyrirtækið Ísteka. Ekki er hægt að fara í saumana á öllum þeim umsögnum sem bárust eðli málsins samkvæmt en rauði þráðurinn í afstöðu aðila er sá að þeir aðilar sem höfðu hagsmuna að gæta af blóðmerahaldi og voru að græða peninga á því lögðust náttúrlega gegn frumvarpinu eðli málsins samkvæmt en almennir borgarar og dýraverndunarsinnar studdu almennt markmið frumvarpsins. Þá bárust einnig á annað hundrað umsagnir til Matvælastofnunar vegna útgáfu starfsleyfis Ísteka, sem framleiðir PMSG úr merablóði, en þorri umsagnaraðila lagðist gegn endurnýjun starfsleyfisins og mótmælti blóðtöku úr fylfullum merum. Það er skemmst frá því að segja að umfangið var að heimild til að auka blóðtökuna var þrefölduð, hvorki meira né minna. Hún þrefaldaðist frá því sem áður var.

Skömmu eftir að frumvarp þetta var lagt fram á 152. löggjafarþingi skipaði matvælaráðherra starfshóp til að fjalla um blóðmerahald. Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að lagaumgjörð um blóðtöku úr fylfullum merum væri óljós og því ekki viðunandi en taldi jafnframt ekki tilefni til að banna starfsemina. Matvælaráðherra setti í kjölfarið reglugerð um starfsemina til þriggja ára. Það er sem sagt búið að tryggja það, a.m.k. að þessu leyti, með reglugerð að það verði haldið áfram að sjúga blóð úr fylfullum merum. Flutningsmenn þessa frumvarps telja að þessi reglugerð dugi ekki til að tryggja velferð hryssanna og afkvæma þeirra. Stjórnvöld hafa sýnt það í verki að þau geta ekki tryggt velferð meranna með eftirliti sýnu og því er nauðsynlegt að banna þessa starfsemi með öllu. Því er frumvarp þetta lagt fram að nýju. Enn og aftur.

Lög um velferð dýra hafa það að markmiði að stuðla að velferð dýra, að þau séu laus við, virðulegur forseti, — og allir hlusti nú, þetta eru lög, ég er að vísa í lög um velferð dýra — „… að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur“.

Ég velti fyrir mér: Hvers vegna erum við að setja þykjustunni dýraverndunarlög? Það er morgunljóst og algerlega vitað að upp á síðkastið hefur gjörsamlega verið faraldur af kvörtunum til MAST, ekki vegna blóðmera, ekki nákvæmlega vegna blóðmeranna, heldur vegna þeirrar hrikalegu meðferðar sem dýrin okkar eru látin sæta hér víðs vegar um sveitir. Síðast varð að fella 13 hross, svipta eigendur þeirra yfirráðum yfir þeim. Þau áttu enga aðra framtíð en sláturhúsið og að vera skotin þar. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir, ítrekaðar kvartanir, þrátt fyrir yfirdýralækni á svæðinu virtist enginn taka eftir því að skepnurnar gengu um eins og beinagrindur, gjörsamlega vannærðar, og höfðu ekki einu sinni fengið að sjá til sólar í langan tíma. Þó að ég sé að hlaupa aðeins út undan mér hvað varðar frumvarpið sem ég er að mæla hér fyrir enn á ný, um að banna blóðmerahald í því formi sem það er gert í dag, þá þykir mér full ástæða til að benda á hið grútmáttlausa regluverk sem skynlausar skepnur þurfa að búa við á Íslandi í dag og í raun og veru vekur athygli úti um alla Evrópu, svo að ekki sé lengra leitað.

Forseti. Ég ætla að endurtaka þessa setningu sem ég var að fara með úr lögum um velferð dýra og markmið þeirra er einfaldlega að stuðla að velferð dýra: „… að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur.“ Enn fremur er markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

Á Íslandi er stunduð blóðtaka úr fylfullum merum í því skyni að vinna úr blóðinu hormónið „pregnant mare serum gonadotropin“, PMSG, sem selt er til líftæknifyrirtækja svo framleiða megi frjósemislyf, aðallega fyrir svínarækt, til aukinnar svínaræktar svo við, elskulegu manneskjurnar sem ganga hér á tveimur fótum, getum étið meira svínakjöt, borðað meira beikon. Á sama tíma hljótum við að sjá að það er verið að grípa freklega inn í lífkeðju svínanna, sem er reynt að láta eiga eins marga grísi og hægt er með eins stuttu millibili og kostur er og til þess er þetta hormón notað.

Árið 2021 voru 119 bændur með 5.383 blóðmerar og hefur blóðmerahald aukist til muna hér á landi að undanförnu. Blóðmerar eru látnar ganga með folöld eins oft og mögulegt er til að hámarka afköst hverrar merar, þar til hormónið finnst ekki lengur í blóði hennar. Þegar svo er komið er náttúrlega ekkert gagn af henni lengur og þá er henni slátrað. Folöldunum er að jafnaði slátrað líka. Þarna er ég að meina að á hverju einasta ári, ef t.d. hryssan — það er náttúrlega dælt úr henni blóði, 5 lítrum, átta vikur í röð, 40 lítrum á þessum átta vikum að jafnaði. Það eru 32 lítrar í hryssu. Það sér það hver heilvita maður hvers lags áníðsla þetta er á einni skepnu, sem gengur ekki bara með folöld heldur er oft og tíðum með folöld undir sér líka sem eru að sjúga hana, að hún skuli þurfa að reyna að halda í við það að endurnýja blóðbúskapinn sinn af slíku afli sem raun ber vitni. Ef þetta er fín blóðmeri þá fær hún að halda áfram að vera til alveg þangað til hún er farin að sýna það að: Æ, æ, voðalega er eitthvað lélegt í henni núna. Það er ekkert gagn í þér lengur, elskuleg.

Á Íslandi sæta fylfullar merar mismiklu og misgrófu ofbeldi við blóðtöku þegar verið er að ná úr þeim hormóninu PMSG. Það má glögglega sjá í heimildarmyndinni „Ísland – land 5.000 blóðmera“ sem var frumsýnd 22. nóvember 2021 og vakti sterk viðbrögð og mikla reiði um heim allan. Í myndinni er fjallað um blóðmerahald á Íslandi þar sem greinilega kemur í ljós sú illa meðferð, misþyrming og dýraníð sem hryssurnar þurfa að sæta við blóðtökuna. Í myndinni eru færð rök fyrir því að ætla megi að slíkt harðræði tíðkist almennt við blóðtökuna hér á landi.

Evrópuþingið hefur skorað á bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og aðildarríki þess að hætta innflutningi og framleiðslu á PMSG. Áskorun þingsins til aðildarríkja ESB er í raun einnig beint til Íslands sem aðildarríkis EES-samningsins. Ef framkvæmdastjórnin grípur til aðgerða til að framfylgja ályktun Evrópuþingsins, sem felur í sér bann við blóðmerahaldi í Evrópu, liggur ljóst fyrir að slíkt bann mun ná til Íslands á grundvelli EES-samningsins. Mikið væri það nú yndislegt ef sú yrði raunin.

Ísland er líklega eini framleiðandi PMSG í allri Evrópu þrátt fyrir að hrossabúskapur sé stundaður í öllum löndum álfunnar. Það vekur furðu að starfsemi sem þessi sé jafn umfangsmikil hér á landi og raun ber vitni.

Íslandsstofa hefur á undanförnum sjö árum verið í sérstöku markaðsátaki til að kynna íslenska hestinn á erlendri grundu. Átakið felst í því að íslenski hesturinn verði þekktur á heimsvísu sem reiðhesturinn með góða geðslagið, sá sem færir fólk nær náttúrunni. Markmiðið með átakinu er að auka verðmætasköpun sem byggist á íslenska hestinum, styrkja ímynd hans í vitund fólks um heim allan og markaðssetja vörumerkið Horses of Iceland.

Ísland ver á ári hverju miklum fjármunum í að draga fram jákvæða ímynd landsins á erlendri grund. Blóðmerahald stórskaðar þessa ímynd og hefur verið fordæmt um heim allan. Ef ekki verður gripið til aðgerða gegn blóðmerahaldi tafarlaust verður orðspor og ímynd Íslands fyrir óafturkræfu tjóni.

Ljóst er að gildandi réttur er langt frá því að vernda fylfullar merar gegn því ofbeldi og þeirri illu meðferð sem felst í blóðmerahaldi. Löggjafinn verður að grípa til aðgerða strax og banna með öllu blóðmerahald. Lagt er til að brot gegn því banni varði refsingu skv. 1. mgr. 45. gr. laga um velferð dýra. Þá er einnig lagt til að 6. mgr. 45. gr., sem kveður á um að brot gegn velferð dýra skuli aðeins sæta rannsókn lögreglu að undangenginni kæru Matvælastofnunar, verði felld brott.

Auðvitað er það galið, virðulegi forseti, ef það þarf alltaf að hafa Matvælastofnun, MAST, sem millilið til að geta komið kærunni til lögreglu. Að sjálfsögðu eigum við íbúar landsins, við þegnarnir að geta kært beint til lögreglu ef við verðum vör við að eitthvað sé til sem okkur þykir vera ill meðferð á dýri.

Mig langar að bæta við í lokin að núna tvívegis, bara með stuttu millibili, hef ég komið í viðtöl við erlenda fjölmiðla, þar á meðal við þá sem framleiddu myndina „Ísland — land 5.000 blóðmera“. Við skulum sjá hver afraksturinn verður af því. Þetta er mál sem má ekki sofna, sérstaklega í ljósi þess að hægt er að fá þetta hormón, fyrir þá sem vilja rugla svona í lífkeðju annarra dýra og auka kjötframleiðslu þeirra þá er hægt að fá þetta hormón í líftækniiðnaðinum. Það er ekki flóknara en það. Það er algerlega ástæðulaust að vera að níðast á íslenskum hryssum, fylfullum hryssum. Það er engin ástæða til þess.

Ég tók eftir því þegar við vorum í kjördæmaviku, ætli það hafi ekki verið snemma í vor, að þá voru ekki allir á eitt sáttir. Auðvitað eru þeir sem hafa hag af því og fjármuni að taka þetta blóð, margir hverjir jafnvel bændur sem eiga bara erfitt í sínum búskap. Þeir hafa verið hvattir til þess að nota þetta sem þægilega aukabúgrein og Ísteka hefur greitt þeim fyrir blóðið. En í rauninni er stærsti eigandinn að þessum merum Ísteka sjálfir, svo að það sé nú sagt.

Það eru ekki allir á eitt sáttir og til eru þeir sem segja: Mínar hryssur eru ekkert svo rosalega miður sín þó að við séum að taka úr þeim blóð. Við erum ekki vond við hryssurnar okkar, við lemjum þær ekki eða eitt eða neitt slíkt. Svo eru aðrir sem segja: Það er alger undantekning ef þú getur fundið villt hross af hvoru kyninu sem er og haldið að það sé átakslaust fyrir skepnuna að troða henni inn í þetta spýtnabrak sem þær eru dregnar inn í þar sem er hengdur upp á þeim hausinn til að ná í bláæðina á hálsinum, og það er engin venjuleg nál sem troðið er í æðina til að dæla úr þeim 5 lítrum af blóði, á mettíma svo að það sé sagt, á algerum mettíma. Það er ekki eins og athöfnin sé eðlileg á nokkurn hátt nema þá í algerum undantekningartilvikum.

Svo kom það nú fram í fyrra þegar hávaðinn var sem mestur út af blóðmeramálinu, út af þessu frumvarpi, að þá komu fulltrúar Ísteka og fleiri sem sögðu: Við höfum ekkert að fela. Það má alveg taka myndir af þessu. Þetta er ekki eins og þessi mynd sýndi. Þetta er bara „feik“ mynd. Það er bara verið að klippa hana til. Þetta er bara ekki rétt.

En svo einkennilega vildi til að í sumar þegar þessi iðja stóð sem hæst ætlaði t.d. tökulið frá þeim, sem framleiddu myndina sem ég áður nefndi, að heimsækja blóðtökubændurna og fá að taka myndir fyrst þar var ekkert til að fela. En nei, það átti ekki uppi á pallborðið hjá bændunum. Það er nefnilega svo skrýtið að það virðist vera hægt að tala um það og segja ýmislegt en svo er önnur saga hvort það er staðreynd eða ekki.

Það er eitt sem við vitum: Staðreyndin er sú að skepnan er hrædd, henni líður illa og oft og tíðum þegar búið er að — og það hef ég frá hestafólki, bara hrossamönnum sjálfum, bæði tamningamönnum og þeim sem eru að rækta íslenska hestinn sem gefur okkur í rauninni mörgum sinnum meira í ríkissjóð en nokkurn tíma þetta sem ég kalla dýraníð á fylfullum hryssum. Einn þeirra varð meira að segja vitni að því þegar var verið að taka blóð og þegar slangan var tekin um hálsinn þá var ekki einu sinni verið að spá í gatið sem var risastórt, það hélt bara áfram að spýta blóði. Þarna stóð þessi fylfulla hryssa, með folaldið sem var að reyna fara til hennar og sjúga hana, og blóðið hélt áfram að spýtast.

Virðulegi forseti. Hvers lags viðbjóður ert þetta eiginlega? Ég get ekki annað sagt. Ég er að tala um áreiðanlegar heimildir, heimildir frá fólki sem er að vinna með hrossin, sem væri tilbúið að koma hvar og hvenær sem er til að segja frá upplifun sinni af því hve hrikaleg nákvæmlega sú upplifun var af því að verða vitni að meðferðinni á skepnunum.

Ég segi, virðulegi forseti: Við þurfum að halda áfram að berjast. Ég vona að hv. formaður atvinnuveganefndar taki málinu meira fagnandi en hann gerði á síðasta vetri. Það voru mjög fáir umsagnaraðilar raunverulega miðað við allar þær umsagnir sem bárust nefndinni. Eðli málsins samkvæmt er atvinnuveganefnd mjög umfangsmikil nefnd þannig að ekki var hægt að ætlast til þess að allir umsagnaraðilar kæmust einu sinni til að fylgja umsögnum sínum eftir. Þetta var það umfangsmikið og margar umsagnir sem bárust. Það sem litaði þetta aðallega var að þetta voru þeir sem höfðu helst hagsmuna að gæta. Ég get sagt það að eftir að myndin var birt og eftir að við fórum að berjast gegn þessari iðju, gegn þessum búskap, þá hafa einhverjir dýralæknar sagt upp samningum við Ísteka og það hafa einhverjir bændur gert líka vegna þess að þeir átta sig á því að þetta er siðferðilega rangt. Þetta er siðferðilega rangt. Það lítur illa út að dýralæknir skuli algerlega að ástæðulausu vera að taka dýri blóð til að vinna úr því hormón til að geta framleitt meira kjöt hjá öðru dýri. Það í rauninni stríðir gegn öllu. Okkur var talin trú um að það væru dýralæknar sem tækju blóð úr þessum hryssum einu sinni í viku, 5.300 og eitthvað hryssum, en svo að það sé sagt, virðulegi forseti, er það ómöguleiki. Það er alger ómöguleiki. Við eigum ekki nógu marga dýralækna til að geta sinnt því þannig að dýralæknar taki blóðið, enda hafa þeir sumir hverjir viðurkennt að þeir komi bara við, hlaupi bara við á bæjunum þar sem iðjan fer fram. Þeir geta ekki staðið í því að sjúga blóð úr hryssunum á fleiri tugum bæja í hverri einustu viku. Það er einfaldlega ómögulegt.

Þannig að ég segi: Betur má ef duga skal þegar er komið er hér með virkilega grútmáttlausa reglugerð sem tryggir ekki einu sinni að dregið sé úr hryssunni minna blóð fyrst það á að halda áfram þessari iðju. Það er í engu sem er tryggt að blóðtakan sé í einhverju samræmi við blóðmagnið í hryssunni og í einhverju samræmi við það sem erlendir sérfræðingar, dýralæknar, hafa gefið út því að hér á landi eigum við afskaplega aumar og litlar rannsóknir sem liggja að baki, og eiginlega bara ekki neinar.

Ég segi enn og aftur að þar sem við erum 63 þingmenn og öllum var boðið að vera á þessu máli þá furða ég mig á því að ekki skyldu fleiri taka utan um málið og fylgja okkur á eftir til að berjast gegn þessu sem ég kalla og mun aldrei kalla annað en andstyggilegt dýraníð. Við höfum ekkert að gera með það að ráðast á fylfullar hryssur til að sjúga þeim 40 lítra af blóði á átta vikum einu sinni á ári til að framleiða hormón fyrir önnur dýr til að við getum borðað meira kjöt.