Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:16]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er nefnilega akkúrat grunnurinn að munur er á að stunda eða banna. Það frumvarp sem hér liggur fyrir gengur út á að banna, að Ísland verði eina ríki Evrópu sem bannar atvinnugreinina. Það er töluvert stórt skref að stíga, en látum það liggja á milli hluta. Það kom fram í umræðu við málið á síðasta þingi að þetta væri bannað í Evrópu en svo reyndist ekki vera. Þetta er ekki bannað en ekki stundað. Það er munur þar á.

Eitt af þeim rökum sem lögð voru fram í þessu máli var að þetta myndi skaða íslenska hestinn erlendis, þ.e. ásýnd hans, og vörumerkið Horses of Iceland t.d. myndi falla við þessa iðju okkar hér á Íslandi. Í mínu síðara andsvari langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi tölur yfir það hvort sala á íslenskum hestum erlendis hafi farið niður á við síðan þetta mál kom upp. Þær tölur sem ég hef sýna að sala íslenska hestsins erlendis hafi ekki gert það — hún hafi aukist. Hefur hv. þingmaður tölur yfir það hvort þetta umtal hafi haft þær afleiðingar sem menn höfðu áhyggjur af í umræðunni á síðasta þingi?