Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:20]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég er einn af flutningsmönnum þessa frumvarps um breytingu á lögum um velferð dýra (bann við blóðmerahaldi). Ástæðan fyrir því, eins og hv. þm. Inga Sæland, fyrsti flutningsmaður þessa frumvarps fjallaði um, er að blóðmerahald er dýraníð. Það að taka blóð úr fylfullri hryssu til að ná í vaxtarhormón úr henni er dýraníð. Það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að það sé siðferðislega ámælisvert og því er það grundvöllurinn að þessu frumvarpi. Hvort útflutningur á hrossum hafi minnkað eða aukist er ekki atriði í þessu máli. Það hefur ekki áhrif á það og gerir dýraníðið ekkert minna eða meira. Dýraníð er dýraníð burt séð frá öllum öðrum breytum.

Ég fylgist aðeins með umræðunni og veit fyrir víst að það hefur verið fjallað um þetta á hollenska og svissneska þinginu og í Danmörku. Danir hafa skipað nefnd til að rannsaka þetta frekar og ef ég man rétt þá eru þeir að íhuga bann við innflutningi á hormóninu. Þetta er notað í svínaræktarbúi þar að einhverju marki. Þar er undir hvort hinn risastóri danski svínaræktunariðnaður, mikill iðnaður í meira en 100 ár, ætli að banna innflutning. Sama gildir í Hollandi, þeir eru að íhuga að banna innflutning og líka Svisslendingar. Það er rétt sem hv. þm. Inga Sæland sagði hér áðan að ekki þarf að banna eitthvað sem er ekki stundað. Eins og Platón sagði: Lögin eru fyrir þá sem brjóta þau. Það er nú bara þannig og því þarf Evrópusambandið ekki að setja lög til að banna eitthvað sem er ekki stundað. Þar er þetta ekki vandamál. Það ætlar hins vegar að íhuga það, sem nokkur lönd sem eru að íhuga, að banna innflutning á hormónunum svo það liggi fyrir.

Varðandi dýraníðið þá tel ég að hér sé um þrenns konar dýraníð að ræða. Það er dýraníð á hinni fylfullu meri sem gengur með afkvæmi sitt í kviði sem er að vaxa þar fyrstu daga og vikur síns lífs. Í öðru lagi er það dýraníð á hinu ófædda folaldi. Þriðja dýraníðið er þegar verið er að sprauta vaxtarhormónum inn í svínið sem er að ala önnur afkvæmi, svo afkvæmi þess vaxi hraðar. Ég hef ekki stúderað hvort það sé líka dýraníð á hinum ófæddu svínum en það er a.m.k. á þremur sviðum sem dýraníð liggur fyrir. Ég tel að jafn ríkt land og mikið velferðarríki og Ísland, ein af ríkustu þjóðum heims, eigi að hafa siðferði varðandi dýravernd og velferð dýra í huga og banna þetta blóðmerahald.

Annað atriði í þessu er sá stallur sem íslenski hesturinn er á. Í huga þjóðarinnar hefur hann alltaf verið þarfasti þjónninn. Að stunda svona iðju á þarfasta þjóninum, sem hefur verið aðalsamgöngutækið okkar frá landnámi, fleiri hundruð árum lengur en nokkurn tímann bifreiðin — við eigum ekki að líða það á hinum fræga íslenska hesti sem er okkur svo kær. Ég tel að efnahagslegir hagsmunir séu ekki þesslegir að við þurfum að stunda blóðmerahald eins og Mongólía, Argentína og önnur fátækari ríki sem við berum okkur ekki saman við. Ég held að þessi fjöldi umsagna sem kom við málið á síðasta þingi sýni vilja, áhuga og bara kröfu um það í samfélaginu að blóðmerahald verði bannað. Ég held líka að þetta sé svolítið svartur blettur á íslensku hrossahaldi í landinu. Mér þykir vænt um íslenska hestinn og íslenska hrossabændur. Íslenski hesturinn er heimsfrægur um allan heim og það er gaman að fylgjast með heimsmeistaramótum íslenska hestsins úti í heimi og í Evrópu. Orðstír hans er ótrúlegur miðað við önnur hrossaræktarkyn, ég tel hann vera einstakan í heiminum. Ég hef búið erlendis og þá er íslenski hesturinn iðulega nefndur og hvað hann sé skemmtilegur og merkilegur. Það er alltaf fólk sem veit ekki af því að það sé verið að taka hormón úr honum.

Ég vona að þetta mál fái góðan framgang í atvinnuveganefnd og ég efast ekki um að formaður nefndarinnar muni sjá til þess að það fái réttláta og góða málsmeðferð og verði afgreitt úr nefnd hið fyrsta svo við getum tekið 2. umr. í málinu.