Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:30]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Ég ætla á þessu stigi máls ekki að gera ágreining við hann í ræðupúlti Alþingis um hvort þetta flokkist undir dýraníð eða ekki. Ég hef einfaldlega ekki fagþekkingu til þess að meta það. Það eru aðrir sem eru í því verkefni og ég treysti þeim ágætlega í það.

Eins og ég sagði áðan fagna ég þeirri vinnu sem kom fram í þessu plaggi sem ég er með hér fyrir framan mig og setti skýrari regluramma í kringum þetta athæfi. Rauði þráðurinn í málflutningi allra sem komu fyrir nefndina í fyrra og sömuleiðis rauði þráðurinn og það sem skín í gegn í þessari skýrslu er að það vanti regluverk um þetta. Því ber að fagna að slíkt sé komið. Þetta er gefið út til þriggja ára þannig að við skulum sjá hver staðan verður eftir þrjú ár, hvort menn meta það þannig að þörf sé á því að banna þetta algjörlega eða herða reglurnar enn frekar. Það á væntanlega eftir að koma í ljós.

Varðandi það að þeir sem hafa hag af málinu, hagaðilar málsins, hafi verið á móti þessu: Já, í einhverjum tilfellum er það alveg rétt en við erum hér með aðila eins og Dýraverndarsamband Íslands og fagráð um velferð dýra sem telja að það eigi að leyfa þetta með skilyrðum. Ég veit ekki, virðulegur forseti, hvaða hag þessir aðilar hafa þessu máli. Ég veit það ekki.

En ég hlakka bara (Forseti hringir.) til að fá þetta mál til atvinnuveganefndar og vonast til þess að við getum (Forseti hringir.) skoðað það þar með opnum huga.