Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

velferð dýra.

53. mál
[16:33]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þótt regluverk í kringum þetta sé bætt og það sé leyft að stunda blóðmerahald í þrjú ár í senn breytir það því ekki að blóðmerahald í sjálfu sér er dýraníð, blóðtakan sjálf er dýraníð á fylfullu merinni, á hinu ófædda folaldi. Svo getum við líka farið að ræða hvort það sama gildi um svínið þegar sprautað er inn í það vaxtarhormórni. Þannig að bætt regluverk og tímabinding á leyfunum bætir ekki stöðuna, svo það liggi fyrir. Í ljósi þess líka að í þingsályktun frá Evrópuþinginu er skorað á framkvæmdastjórnina að taka málið upp og banna blóðmerahald innan ESB spái ég því að eftir nokkur ár, ef við horfum inn í framtíðina, muni framkvæmdastjórnin líklega koma með tilskipun um að banna blóðmerahald. Þessi tilskipunin mun verða hluti af EES-samningnum, hún mun koma hingað og við þurfum að samþykkja hana. Þá getum við minnst þess að það var andstaða í þinginu gegn þessu. Þá munu allir samþykkja þetta.

Ég veit að hv. þingmaður er úr fallegasta firði landsins. Ég hef sjálfur orðið þess heiðurs aðnjótandi að vinna í fallegasta firði landsins, Skagafirðinum, þar sem er mekka hrossaræktar í landinu. Ég vona og tel að Skagfirðingar séu sammála því að blóðmerahald sé dýraníð og að við eigum að banna blóðmerahald — það er mín sannfæring innst í hjartanu — og líka Húnvetningar sem eru í okkar fína kjördæmi, skemmtilegasta kjördæmi landsins. (IngS: Svona, svona.)