Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 24. fundur,  27. okt. 2022.

samkeppnisúttekt á löggjöf og regluverki.

131. mál
[17:09]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir þessa spurningu og þessa athugasemd. Ég greini það að við erum algerlega á sama máli hvað þetta varðar og ég tek undir það að þetta eigi að fara til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem hv. þingmaður situr. (ÓBK: Sat.) — Sat. Þá er sú vegtylla farin. (ÓBK: Þetta týnist alltaf.) — Þetta týnist alltaf. Þetta kemur fyrir okkur. En það sem ég vildi sagt hafa er að þetta er risamál. Það snýr ekki síst að lífsgæðum okkar af því að við erum að tala um um það fjármagn sem verið er að setja í heilbrigðiskerfið. Ég er sannfærð um það og við í Viðreisn erum ítrekað búin að leggja hér fram frumvarp sem tekur einmitt á og ýtir undir samkeppni á sviði heilbrigðisþjónustu. Öll þekkjum við söguna um Klíníkina og fleiri stofnanir, fleiri einkareknar stofnanir sem sumir mega ekki heyra minnst hér í þessum þingsal, en það má hv. þm. Óli Björn Kárason því að við erum á sama máli hvað það varðar.

Ég vil taka undir það að nefndin skoði sérstaklega þennan þátt. Mér finnst, og ég verð að segja það þó að ég gagnrýni þá ráðherra í ríkisstjórn sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem tengjast m.a. nýsköpun, líka fjármálaráðuneytinu, að ég hefði líka viljað sjá tekið af skarið og ekki síst heilbrigðisráðuneytið, að heilbrigðisráðuneytið hefði stigið inn í það mál sem nú er flutt af hálfu landlæknis sem er beinlínis beint að einkafyrirtæki sem er að reyna að hasla sér völl og hefur fjárfest mjög mikið, og reynt er að sniðganga allar útboðsreglur. Mér finnst það ekki heilbrigt. Þetta er ekki í þágu okkar neytenda, þetta er ekki í þágu heilbrigðiskerfisins og þetta er ekki í þágu valfrelsis eða fjölbreytni. Þess vegna er ég að segja að mér finnst ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir ekki grípa þau tækifæri sem gefast til þess einmitt að ýta undir þá samkeppni sem við hv. þingmaður erum sammála um.