153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:11]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Já, við heyrum oft þessar tölur um milljarða sem eru settar fram í samhengisleysi. Hæstv. heilbrigðisráðherra virðist ekki hafa lesið umsagnir þessara aðila sem eru vel færir um að skynja sinn eigin fjárhagsvanda. Landspítalinn hefur breyst í eins konar hjúkrunarheimili. Þar erum við að halda uppi landsins dýrustu legudeild þar sem fólk er að eyða sínum síðustu kvöldum og mánuðum á göngum bráðamóttöku í staðinn fyrir að vera á hjúkrunarheimili. Laun hafa hækkað um tugi prósenta og fjármagn hefur varla fylgt því. En þess vegna er fjárhagurinn að rýmka, út frá þessum aukagreiðslum. Við sjáum sömu fyrirsagnir frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og heilbrigðisstofnunum um allt land. Þetta heldur ekki einu sinni í við launakostnað. Það liggur alveg fyrir að þessum kostnaði er ekki mætt. Ég spyr: Fær hæstv. heilbrigðisráðherra einhverju um þennan málaflokk í raun ráðið eða er það fjármálaráðherra sem stýrir þessu ráðuneyti? Það liggur alveg fyrir að fjárskorturinn er svo gífurlegur að við erum að lenda í kerfislægum vexti sem við getum ekki undið ofan af nema (Forseti hringir.) við tökum okkur saman um að lyfta þessum kerfum upp á hærra plan.