153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

fjármögnun heilbrigðiskerfisins.

[15:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til hv. þingmanns. Það er mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál vegna þess að frammi fyrir okkur standa miklar áskoranir, bæði þegar kemur að fjármögnun og mönnun og það er ekki bara hér á landi. Það er mjög knýjandi í kjölfarið á þeim faraldri sem við fórum í gegnum.

Talandi um álagsgreiðslur þá hefur til að mynda spítalinn þurft að mæta auknum veikindum og fjarvistum starfsfólks með því að biðja fólkið sem getur hverju sinni tekið á sig aukavaktir að gera það. Höfum við mætt þeim greiðslum? Já, við gerum það. Þurfum við að ná utan um það að nýju? Já, vegna þess að það gengur auðvitað ekki að keyra kerfið svoleiðis endalaust áfram.

Varðandi bráðamóttökuna þá setti ég saman í upphafi sumars sérstakt viðbragðsteymi um bráðamóttöku með aðilum alls staðar að af landinu og hér sérstaklega í Kraganum. Þar get ég nefnt til að mynda að við settum aukarými á Eir, til að taka við, og við vorum að opna núna (Forseti hringir.) Móberg á Selfossi og við vorum að semja um 39 endurhæfingarrými í Hafnarfirði. Þessu flýttum við öllu,(Forseti hringir.) m.a. til að styðja við bráðamóttökuna.

Hæstv. forseti. Við þurfum að ræða þetta miklu meira.