153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

desemberuppbót fyrir öryrkja.

[15:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni kærlega fyrir að spyrja þessarar góðu spurningar. Mig langar að byrja á því að rifja upp að um mitt þetta ár tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hækka bætur örorku- og ellilífeyrisþega um 3%, húsnæðisbætur voru hækkaðar um 10% auk þess sem gripið var til ákveðinna aðgerða varðandi barnabætur. Það sem hv. þingmaður spyr mig hér um er hvort ég muni beita mér fyrir einhverju sambærilegu við það sem var sett inn í fyrra og hittiðfyrra, hvort það voru síðustu tvö ár eða þrjú ár man ég ekki alveg. Ég hef beitt mér fyrir því við ríkisstjórnarborðið að við reynum að mæta örorkulífeyrisþegum upp að ákveðnu marki.

Varðandi það sem hv. þingmaður spyr um, þ.e. hina svokölluðu eingreiðslu, þá hefur ýmislegt fleira verið gert á undanförnum árum í kringum jól og áramót. Meðal annars hefur verið sett aukið fjármagn til hjálparstofnana sem ég vil líka fá að nefna og síðan má ekki gleyma því að í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir 6% hækkun til örorku- og ellilífeyrisþega sem mætir þá þeirri verðbólgu sem verið hefur á þessu ári.