153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

málefni hælisleitenda.

[15:20]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Það hefur reynst vestrænum þjóðum mjög erfitt að vísa fólki úr landi, jafnvel þegar komið hefur á daginn að viðkomandi eigi ekki rétt á vist í landinu, eigi ekki rétt á hæli til að mynda, og þetta verður erfiðari eftir því sem lengri tími líður. Við gætum jafnvel þurft tugi lögreglumanna til að fylgja fáeinum einstaklingum úr landinu og þetta verður auðvitað sérstaklega erfitt fyrir þá sem í hlut eiga, óþægilegt og stundum jafnvel sorglegt á allan hátt en þeim mun erfiðara eftir því sem lengri tími líður. Þess vegna hafa Norðurlöndin, ekki hvað síst Danir, ákveðið til að takast á við þetta ekki hvað síst, að reyna að hindra það að fólk leiti beint til landsins til að sækja þar um hæli heldur geti þá frekar sótt um annars staðar. Íslensk stjórnvöld hafa farið í þveröfuga átt, þessi ríkisstjórn, með því að bæta í seglana, eins og hæstv. dómsmálaráðherra hefur kallað það, hvatana sem hér eru til staðar til þess að fólk leggi í hættuför til að komast alla leið til Íslands. Það er verið að fara í þveröfuga átt við hin Norðurlöndin.

Því spyr ég hæstv. ráðherra í ljósi stöðunnar sem upp er komin nú: Hvað stendur til að gera, ef eitthvað, til að draga úr þessum hvötum og til að nýta frekar möguleika okkar á að hjálpa sem flestum þeirra sem eru í mestri neyð og gera það sem best? Svarið virðist vera ekkert miðað við stefnu ríkisstjórnarinnar til þessa, miðað við útlendingafrumvarp hæstv. ráðherra, sem nú hefur enn verið þynnt út þegar það er lagt fram í fimmta sinn og ekki vitað hvort það fái yfir höfuð stuðning frá samstarfsflokkum í ríkisstjórninni, og miðað við ályktanir Sjálfstæðisflokksins á landsfundi nú um helgina. Ég hefði ekki getað metið það, hefði ég ekki vitað það fyrir, og lesið tvær ályktanir saman, ályktanir Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar um þessi mál, hvor þeirra væri hvað því að þær eru eins. (Forseti hringir.) Ályktun Sjálfstæðisflokksins hefði flogið í gegn á landsfundi Samfylkingarinnar. Flokkurinn virðist vera að elta ekki bara samstarfsflokka í ríkisstjórn heldur hluta af stjórnarandstöðunni líka.