153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

greiðsla skulda ÍL-sjóðs.

[15:30]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Þetta mál er auðvitað mjög stórt hagsmunamál fyrir almenning í landinu, ég held að við getum öll verið sammála um það. Kannski ekki síst vegna þess að um er að ræða gríðarlega háar fjárhæðir sem almenningur er í raun að borga miðað við hvernig kerfið er í dag. Því er mjög brýnt að hægt sé að leysa þetta gríðarlega stóra hagsmunamál fyrir almenning í landinu og það er verið að reyna að gera það. Ég veit ekki betur en fjármálaráðherra sé í viðræðum við lífeyrissjóðina um að reyna að ná einhverri lendingu í þessu máli. Ég vonast til að það takist. Við skulum sjá hvort það gerir það ekki. Hvort almenningur borgi þetta með þeim hætti sem nú er að gerast eða að lífeyrissjóðirnir taki þetta á sig upp að einhverju marki — það er kannski verið að tala um að peningarnir komi hvort heldur sem er úr svipuðum vösum. Aðalmálið er að reyna að ná lausn í þessu máli og ég veit að fjármálaráðherra vinnur að því.