Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[15:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Árið 2019 var samþykkt frumvarp þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, Lilju Alfreðsdóttur, þess efnis að eitt leyfisbréf skyldi gefið út til kennara þvert á leik-, grunn- og framhaldsskólastig. Frumvarpið var sett fram, eins og segir á vef menntamálaráðuneytisins, með leyfi forseta:

„ …að líkur séu taldar á því að breytingarnar sem frumvarpið felur í sér verði til þess að efla skólaþróun, auka starfsánægju og styðja við nýliðun í kennarastétt. Þá er einnig gert ráð fyrir því í frumvarpinu að breytingarnar leiði til aukins sveigjanleika og flæðis kennara milli skólastiga, hvatning til starfsþróunar, gæði menntunar og fjölbreytileiki verði meiri, auk þess sem stuðlað verði að starfsöryggi kennara. Í breytingunum felst einnig viðurkenning á hæfni og störfum kennara og faglegu sjálfstæði þeirra. Enn fremur eru taldar líkur á að það leiði til aukinnar skólaþróunar á öllum skólastigum og aukinnar nýliðunar kennara.“

Í umsögnum við frumvarpið bentu kennarar, ekki síst framhaldsskólakennarar, á að leyfisbréfið rýrði gildi kennaramenntunar á öllum skólastigum og gerði lítið úr sérþekkingu hvers skólastigs og öðru þar að lútandi sem nám byggir á. Almenn jákvæðni var hins vegar úr ranni leik- og grunnskólakennara. Hjá formanni Félags leikskólakennara kom fram að þetta gæti mögulega orðið til þess að laða fleiri nemendur í leikskólakennaranám, sem væri vissulega jákvætt, en á hinn bóginn gæti það leitt til þess að leikskólakennarar leituðu frekar á önnur skólastig þar sem starfsaðstæður og vinnuskipulag væri annað. Hann benti í kjölfarið á að mikilvægt væri að sveitarfélögin bættu til muna starfsaðstæður leikskólakennara og færðu kjör, starfs- og vinnutíma til samræmis þvert á skólastig. Hann óttaðist líka um samkeppni leikskóla við grunnskóla um menntaða kennara. Það er ein af spurningunum sem ég beini til ráðherra hvort hafi raungerst.

Af skólastigunum þremur er leikskólastigið það stig sem er líklega viðkvæmast þegar kemur að mönnun. Þrátt fyrir ýmis úrræði hefur víða gengið erfiðlega að manna leikskóla með menntuðum kennurum. Staðan í dag er sú að það vantar um 1.500 leikskólakennara til starfa á landinu og hlutfall faglærðra leikskólakennara er mun lægra í sumum sveitarfélögum en öðrum. Leikskólastigið hefur vaxið hratt og sífellt háværari kröfur eru um að börn komist á leikskóla að loknu 12 mánaða fæðingarorlofi foreldra og barna. Það er erfitt að sjá hvernig það á að vera framkvæmanlegt þar sem mikið vantar upp á að faglegt starfsfólk sinni umönnun og menntun yngstu barnanna okkar. Ég vil segja það í þessu samhengi að ég tel afar mikilvægt að fólk sem starfar á leikskólum og hefur ekki lokið stúdentsprófi fái tækifæri til að hefja fagskólanám, enda hefur það sýnt sig með samstarfsverkefnum á Suðurnesjum, Suðurlandi og í Árborg að það hefur skilað góðum árangri.

Virðulegi forseti. Það kom einnig fram í þeirri umræðu sem átti sér stað á þessum tíma að með sveigjanleika milli skólastiga, eins og leyfisbréfið gæfi, væri hægt að bæta skipulag og minnka gamaldags miðstýrða kassahugsun, eins og formaður Kennarafélags Reykjavíkur komst að orði, enda vitum við flest að menntun er í sífelldri þróun og starfið þarf að vera sveigjanlegt. Þar skiptir ekki síst máli að faglegt sjálfstæði kennara njóti sín. Kennari getur með starfsþróun aukið við færni sína og breytt sérhæfingu sinni eftir því sem honum hugnast best í gegnum starfsferil sinn og fært sig á milli skólastiga eftir áhuga eða þörf á hverjum tíma.

Virðulegi forseti. Hverri kynslóð fylgja nýjar áskoranir og skólakerfið þarf að vera í stöðugri þróun. Í þeim öru samfélagslegu breytingum sem við lifum við eru kennarar ekki síst þeir sem þurfa að vera á tánum og þurfa sífellt að auka færni sína til að mæta hinum breytilegu aðstæðum. Nú þegar liðin eru tæp þrjú ár síðan leyfisbréfið kom til framkvæmda er ekki úr vegi að spyrja hvernig það hefur reynst, hvort þau markmið og umbætur sem það átti að stuðla að hafi komið til framkvæmda og hvort sjáanlegur halli sé á eitt skólastig umfram annað þegar kemur að þeim umbótum, og ef svo er, hvað hæstv. mennta- og barnamálaráðherra hyggst gera í þeim málum. Ég geri svo sannarlega ráð fyrir að Covid hafi haft einhver áhrif á stöðuna sem þá væri vert að draga fram. Vil ég í því sambandi segja að kennarar stóðu sig með eindæmum frábærlega í þeim aðstæðum og sýndu svo sannarlega aðlögunarhæfni sína til að bregðast hratt við mjög erfiðum aðstæðum.

Ég legg hér fyrir hæstv. ráðherra fjórar spurningar í sjö liðum sem ég geri ráð fyrir að verði snúið að komast yfir að öllu leyti hér í svörum. Ég fæ þá líka bara að fylgja því eftir með skriflegum fyrirspurnum ef við komumst ekki yfir þetta en ég hlakka til að hlusta hér á umræðuna.