Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[15:53]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir þessa umræðu og fagna henni hér í dag. Eitt leyfisbréf kennarar þvert á skólastig er nýmæli í lögum um menntun og hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla líkt og þingmaðurinn fór yfir. Jafnframt fór hún vel yfir markmið laganna og hvaða forsendur lágu þar að baki. Eitt leyfisbréf kennara var reyndar einungis einn áhersluþátta af nokkrum í þessum nýju kennararlögum sem leyfisbréfið var í. Meðal annarra áhersluþátta eru almenn og sérhæfð hæfni kennara og skólastjórnenda, sveigjanleiki í starfi, starfsöryggi og starfsþróun. Eitt leyfisbréf hefur vissulega skapað aukinn sveigjanleika fyrir kennara til að færa sig á milli skólastiga. Kennarar sem áður störfuðu sem leiðbeinendur á öðru skólastigi en þeir höfðu sérhæfingu í hafa í dag kennsluréttindi á öllum þremur skólastigunum. Þar með er starfsöryggi mun tryggara þar sem störf þeirra eru ekki auglýst árlega og þeir njóta launakjara sem kennarar en ekki sem leiðbeinendur. Starfsþróun kennara og skólastjórnenda er mikilvægur þáttur þegar kemur að því að auka gæði skólastarfs og fylgja eftir breytingum sem birtast í helstu stefnuskjölum stjórnvalda, til að mynda lögum, reglugerðum og aðalnámskrám.

Aðsókn í kennaranám hefur svo sannarlega aukist. Vorið 2019 var sett af stað fimm ára átaksverkefni stjórnvalda um nýliðun kennara en markmið þess er að bregðast við kennaraskorti með því að fjölga kennurum á öllum skólastigum. Ráðuneytið fylgist grannt með árangri þessa verkefnis um nýliðun kennara, sem þessi nýju lög spila einnig inn í, með markvissri gagnaöflun og til að fara stuttlega yfir meginatriðin hefur aðsókn í kennaranám stóraukist. Sem dæmi sóttu 855 um inngöngu í kennaranám árið 2018. Ári síðar, þegar átaksverkefninu var hleypt af stokkunum, fóru umsóknir í 1.280 og 2020 hafði umsögnum fjölgað enn frekar og þær orðnar ríflega 1.700. Í fyrra voru þær 1.500 og nú í ár um 1.100, þannig að við erum að sjá aðsóknartölur fara fram úr björtustu vonum. En það nægir ekki að horfa aðeins á aukna aðsókn í kennaranámið sem slíkt. Allir þessir kennarar þurfa að sjá tækifæri í því að starfa við kennslu að námi loknu og þar skiptir starfsumhverfi og tækifæri kennara til að vaxa og dafna og þróast í starfi höfuðmáli.

Kennararlögin hafa einnig orðið til þess að fjöldi fyrrum kennaranema sem lokið hafa bróðurpartinum af kennaranámi sínu en hætt í námi og ráðið sig til starfa sem leiðbeinendur hefur endurritast í kennaranám og útskrifast með leyfisbréf. Þar má telja að hvatningarstyrkir til kennaranema á lokaári, sem er hluti af nýliðunaraðgerðum stjórnvalda, ákvæði laganna um nýja MT-gráðu og eitt leyfisbréf hafi allt verið samverkandi þættir sem skilað hafa árangri. Þannig má segja að kennaralaun hafi hvað þetta varðar stuðlað að skólaþróun og aukinni hæfni þeirra fagstétta sem starfa í skólunum.

Varðandi fjölda leiðbeinenda, af því að þingmaðurinn spurði um það, þá erum við loks farin að sjá þróun í rétta átt í leik- og grunnskólum. Fjöldi leiðbeinanda hefur oft verið ágætismælikvarði á hvernig gengur að ráða í lausar kennarastöður á þessum skólastigum. Ef við tökum grunnskólastigið sem dæmi hefur hlutfallið farið lækkandi á undanförnum fjórum árum, sem er mikið gleðiefni. Í vetur starfa alls 339 leiðbeinendur við grunnskóla landsins en innan þessa fjölda eru rúmlega 100 kennaranemar sem eru komnir vel á veg í sínu námi og eru í launuðu starfsnámi á lokaári og útskrifast brátt með leyfisbréf. Í fyrra voru leiðbeinendur tæplega 450, þar af helmingur í kennaranámi, en fyrir tveimur árum voru þeir 550 og rúmlega helmingur þeirra voru kennaranemar. Til samanburðar náði fjöldi leiðbeinanda í grunnskólum landsins ákveðnum toppi árið 2019 þegar þeir fóru yfir 700 talsins.

Spurt var sérstaklega um skólaþróun og þá langar mig að benda á að samhliða lagasetningunni var sett á laggirnar svokölluð Menntaflétta sem er samstarfsverkefni nokkurra lykilaðila þegar kemur að endurmenntun og starfsþróun kennara. Menntafléttunni var stýrt af ráðuneytinu til þriggja ára ásamt Háskóla Íslands og unnið í samstarfi við Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands. Námskeið Menntaflétturnar hafa verið ákaflega vinsæl og vel sótt og í vetur og fyrravetur hafa yfir 1.200 kennarar og skólastjórnendur sótt mjög fjölbreytt námskeið Menntafléttunnar.

Ráðuneytið hefur ekki gert formlega úttekt á starfsánægju kennara eftir skólastigum eftir að lögin tóku gildi en gera má ráð fyrir að reglubundnar viðhorfs- og starfsánægjukannanir stéttarfélaga geti varpað ákveðnu ljósi á þá stöðu.

Sérstaklega var spurt um leikskólastigið og það átaksverkefni stjórnvalda að fjölgun kennara nái til allra skólastiga. Við vitum að vandinn er mikill á leikskólastigi og við höfum gefið og erum að gefa því skólastigi sérstakan gaum. Útskrifuðum leikskólakennurum hefur fjölgað frá því að átaksverkefni um nýliðun kennara hófst. Árið 2020 útskrifuðust þrír leikskólakennarar frá menntavísindasviði HÍ en nú í ár voru þeir 76 talsins. Það má því líta svo á að mikið hafi verið unnið í því að fjölga leikskólakennurum en þar má sannarlega gera meira og betur má ef duga skal. Þeirri vinnu er ekki lokið og við höldum áfram í þeirri baráttu. Hér má einnig nefna viljayfirlýsingu sem undirrituð var nýverið um að koma á fót fagháskólanámi í leikskólafræðum í öllum landshlutum. Sú vinna er farin af stað og ber menntavísindasvið Háskóla Íslands (Forseti hringir.) ábyrgð á því.

Ég mun síðan koma betur inn á leikskólastigið í lokaorðum mínum vegna þess að ég komst ekki yfir meira á þeim knappa tíma sem forseti úthlutar.