Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:04]
Horfa

Diljá Mist Einarsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna og hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Markmið kennararafrumvarpsins um eitt leyfisbréf kennara þvert á skólastig eru að mínu mati góð. Það hlýtur að vera gott að stefna að sveigjanlegra skólakerfi og samfellu milli skólastiga, meira valfrelsi og tækifærum kennara og fjölbreytileika í menntakerfinu. Frumvarpið var þess vegna skref í rétta átt. En við sem hér störfum þekkjum að það er eitt að samþykkja hér lög og reglur og síðan annað hvernig tekst til við að framfylgja þeim. Það er einmitt það sem er hér til umræðu; hvernig til hafi tekist við framkvæmd þessara breytinga. Hefur tekist að skapa samfellu milli skólastiga og hafa skólastigin verið samræmd nægjanlega? Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um að leikskólar séu ekki bara dagvistunarúrræði heldur einmitt fyrsta skólastigið. Framkvæmdin ber þess hins vegar ekki merki. Í svari hæstv. mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn sem ég sendi honum í haust kemur fram að ekkert sveitarfélag uppfylli skilyrði laga um menntun og hæfni kennara við leikskóla. Það er sláandi staðreynd. Á sama tíma og við tölum fyrir þessari samfellu, auknu frelsi og tækifærum kennara, eru starfsaðstæður og umhverfi kennara mjög misjafnt milli skólastiga. Afleiðingin ætti að vera öllum augljós, eins og málshefjandi fór hér yfir. Mikill skortur er á kennurum á fyrsta skólastigi, leikskólanum. Við göngum þarna einfaldlega ekki í takt og það er gott að við ræðum þennan viðvarandi vanda varðandi fyrsta skólastigið. Skilaboð okkar á þinginu eru þau að kennarar séu lykilstarfsmenn á fyrsta skólastiginu. Hvernig getum við stuðlað að því að svo verði í raun og veru?