Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:08]
Horfa

Elín Anna Gísladóttir (V):

Virðulegur forseti. Það hafa átt og eru að eiga sér stað miklar breytingar í skólasamfélaginu okkar. Leyfisbréfum var breytt, innleiðing farsældarlaganna hefur áhrif á skólastarf og verið er að leggja niður Menntamálastofnun ásamt fleiru. Það mætti kannski orða það þannig að verið sé að breyta landslaginu alveg. Að einhverju leyti má segja sem svo að þörfin sé mikil þar sem framtíðin hefur komið hratt og allt annar veruleiki sem við stöndum frammi fyrir í dag en við höfðum fyrir aðeins örfáum árum. En erum við að flýta okkur of hratt án þess að hugsa út í afleiðingar ákvarðana okkar?

Það er gríðarlega mikilvægt þegar farið er í breytingar eins og þessa, með breytingu á leyfisbréfum, að við séum með áætlun um hvernig við ætlum að meta áhrifin. Hvernig ætlum við að bregðast við ef þetta hefur ekki tilætluð áhrif eða jafnvel hefur þau áhrif að færa hlutina til verri vegar? Er sú áætlun til? Með þessum breytingum gaf ríkið kennurunum ákveðið frelsi til að hreyfa sig á milli skólastiga. Sem stuðningskona frelsismála lít ég á það sem jákvætt og gott skref. Þetta ætti jafnvel að ýta undir það að fólk mennti sig á þessu sviði því að það hefur úr meiru að velja að námi loknu. Ráðherra svaraði áðan spurningu minni um hvort aukning í kennaranám sé greinanleg og það er gríðarlega jákvætt að svo sé. Vonandi stefnir þá, eins og margir hafa komið inn á hér, hugur þeirra sem eru í námi núna inn á leikskólastigið því að þar erum við í gríðarlegum vandræðum eftir þessa breytingu.