Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:12]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa mjög svo ágætu umræðu. Í ljósi þess að nú eru liðin tæp þrjú ár síðan lagabreytingin sem við ræðum var gerð er eðlilegt að velta upp þeirri spurningu hverju breytingarnar hafi í rauninni skilað og hvort sú aukna samvinna sem lagt var upp með að leyfisbréfin myndu skila hafi raungerst. Stærstur hluti þessa tíma einkenndist jú af heimsfaraldri kórónuveiru sem vissulega hafði áhrif á allt skólastarf með tilheyrandi álagi á kennara og starfsfólk á öllum þessum skólastigum og ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að allt það fólk sem vann í skólunum á öllum þessum skólastigum stóð sig afbragðsvel í þeim erfiðu aðstæðum. Í ljósi heimsfaraldursins hefur e.t.v. ekki gefist rými til að skoða áhrif þessara breytinga gaumgæfilega en hæstv. ráðherra nefnir hér mörg mjög áhugaverð atriði sem hjálpa til. Er ekki lag að gera formlega úttekt á því hvernig til hefur tekist? Mér heyrist fleiri hv. þingmenn hér í salnum vera á því þó að við nálgumst það kannski með mismunandi hætti. Hefur eitt leyfisbréf aukið samvinnu milli skólastiga eins og lagt var upp með? Má þar sérstaklega horfa til samstarfs sem var fyrirhugað á milli efstu bekkja grunnskóla og framhaldsskóla. Hefur farið fram greining eða samráð við grunnskóla og framhaldsskóla þegar kemur að þessari samvinnu og hefur hún á einhverjum tímapunkti verið skilgreind? Hefur verið við vinnu starfshópur til að stuðla að þessari samvinnu? Hvað af þessum atriðum hefur í sjálfu sér verið í virkni þennan tíma þrátt fyrir heimsfaraldur kórónuveiru?

Virðulegur forseti. Þegar breytingar eru gerðar á formi leyfisbréfs og þar af leiðandi starfsmöguleikum kennara, eins og var ráðist í með þessu eina leyfisbréfi, er að mínu mati nauðsynlegt að fylgja því eftir og gera úttekt á því hverju sú vinna hefur skilað og hvort árangurinn teljist fullnægjandi eða hvort það þurfi að fara í frekari aðgerðir til að ná honum fram.