Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:14]
Horfa

Ingibjörg Isaksen (F):

Virðulegi forseti. Ég vil líkt og aðrir byrja hér á því að þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það er ávallt mikilvægt að ræða og rýna í hvernig gengur þegar ráðist er í breytingar. Eitt leyfisbréf kennara, sem við ræðum hér í dag, er ný leið til að ná í fólk í auknum mæli með menntun og hæfni til að sinna leik-, grunn- og framhaldsskólakennslu. Það er ekki komin löng reynsla á þetta fyrirkomulag, eða rétt um þrjú ár, en fyrirkomulagið virðist vera að virka samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið. Út frá því er samt mikilvægt þegar frá líður að endurskoða og meta þær aðgerðir sem farið hefur verið í því að við þurfum jú að læra af reynslunni og vera tilbúin til að bregðast við ef þörf verður á.

Þar sem ég hef ekki séð nein tölfræðileg gögn um reynsluna af einu leyfisbréfi get ég einungis talað út frá tilfinningum og þeim upplýsingum sem ég hef fengið í samtali við kennara og skólastjóra og einstaklinga úr skólakerfinu. Þar hef ég heyrt að þessar breytingar séu nánast eingöngu jákvæðar. Ræða hæstv. ráðherra hér á undan staðfestir það einmitt. Við höfum einnig fengið upplýsingar um að fólk sem starfað hafði sem leiðbeinendur sé nú loksins að klára námið sitt, einmitt vegna þeirra aðgerða sem ráðist var í. Kennarastarfið þykir nú meira aðlaðandi enda sýna tölur um ásókn í kennaranám það svo sannarlega svart á hvítu. Það er greinilegt að við eigum fullt af góðu og frambærilegu fólki sem vill fá starfa sem kennarar enda er kennarastarfið göfugt og gefandi en einnig krefjandi. Starf kennara er einstakt og það skiptir líka máli fyrir okkur sem samfélag að eiga góðan hóp kennara á öllum stigum menntakerfisins.

Einu áhyggjurnar sem ég hef heyrt varðandi leyfisbréfin eru þær að kennarar séu í auknum mæli að færa sig frá leikskólum yfir í grunnskóla þar sem starfsumhverfi er með öðrum hætti. Við þurfum að vera vakandi yfir þessum hugsanlegu tilfæringum milli skólastiga og stíga inn í með einhverjum hætti ef þörf verður á. Staðreyndin er sú, þrátt fyrir mikla fjölgun leikskólakennara, að enn er gríðarleg vöntun (Forseti hringir.) á þeim samt sem áður. Við erum öll meðvituð um hversu mikilvægur grunnur (Forseti hringir.) að framtíð barnanna okkar er einmitt lagður í leikskólum.