Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:16]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf):

Frú forseti. Í síðustu viku lýsti áttunda þing Kennarasambands Íslands yfir áhyggjum af skorti á kennurum og af mönnunarvanda í leik- og grunnskólum. Í ályktun sambandsins er kallað eftir því að fleira fagfólk sé ráðið til starfa í leikskólum og grunnskólum svo tryggja megi farsæld nemenda. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins, var svo til viðtals á Morgunvaktinni í morgun á Rás 1 og lýsti sérstökum áhyggjum af stöðunni. Hann bendir á að þótt vissulega hafi verið gripið til ákveðinna aðgerða til að efla nýliðun þá blasi samt við mönnunarvandi í grunnskólum og framhaldsskólum, sér í lagi þegar kemur að verknámi. Svo hljótum við auðvitað að spyrja okkur hvort átaksverkefni og aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á undanförnum árum til að bregðast við kennaraskorti og fjölga nýnemum í kennaranámi hafi skilað árangri og dugað til að mæta þessum áskorunum sem Magnús Þór lýsti. Það er eitt að grípa til aðgerða til að stuðla að því að fólk sæki sér kennaramenntun, en svo er annað að tryggja að kennaramenntað fólk kjósi að starfa við kennslu í íslenska skólakerfinu. Þar koma auðvitað inn þættir eins og laun, starfskjör og starfsaðstæður. Það væri kannski gott að fá skýr svör frá hæstv. ráðherra í hans seinni ræðu, hvort hann sjái fyrir sér að þær áskoranir sem formaður Kennarasambandsins lýsti í útvarpinu í morgun muni leysast svona af sjálfu sér vegna aðgerða sem þegar hefur verið gripið til eða hvort hæstv. ráðherra telji þörf á enn frekara átaki og frekari aðgerðum til að stuðla að nýliðun.