Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:21]
Horfa

Guðrún Hafsteinsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Í langan tíma hef ég verið gagnrýnin á skólakerfið okkar. Það er margt virkilega gott í okkar menntakerfi en það er líka margt sem betur mætti fara. Það er nauðsynlegt að menntakerfið sé í sífelldri mótun og svari þannig kalli hvers samtíma og horfi til framtíðar. Menntakerfið þarf að vera síkvikt og sveigjanlegt og hafa getu til að sinna hverjum nemanda eftir hæfni og getu hvers og eins. Eins þarf kerfið að vera þannig uppbyggt að hæfni og geta hvers kennara njóti sín innan kerfisins. Með nýjum lögum sem samþykkt voru árið 2019, um eitt leyfisbréf kennara, er aukin ábyrgð sett á skólastjórnendur að meta hæfni og getu kennara í hvert starf fyrir sig. Ég lít svo á að hér sé viðleitni til að gera skólakerfið okkar enn betra. Það er jákvætt að kennarar geti núna hreyft sig á milli skólakerfa og fært þar með reynslu á milli. Kennari sem hóf sinn starfsferil kannski sem leikskólakennari hefur nú þann möguleika að þróa sig áfram í starfi og sækja um störf sem kennari í framhaldsskóla. Það hlýtur að vera jákvætt. Það er samt sem áður ekki hægt að horfa fram hjá því að þessar breytingar ýta undir mönnunarvanda innan leikskólanna. Það er margþættur vandi og ekki ein lausn sem leysir það. En nú hefur ráðherra boðað endurskoðun á menntastefnu og vona ég innilega að í þeirri endurskoðun muni leikskólamálin verða tekin föstum tökum. Við verðum að skoða það betur að ekki sé enn nægilegt jafnvægi á milli leik- og grunnskóla og við verðum að bregðast við því.