Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það hefur kristallast í þessari umræðu hér í dag að enn einu sinni sitjum við uppi með afleidd áhrif lagasetningar sem sáust ekki fyrir við setningu laganna. Hæstv. ráðherra Ásmundur Einar Daðason hlær hér í sæti sínu en mig langar til að biðja hæstv. ráðherra að koma inn á það í ræðu sinni á eftir hvort einhver greining hafi farið fram fyrir setningu laganna sem benti til þess að straumurinn yrði fyrst og fremst úr stétt leikskólakennara upp á efri stig námsferilsins. Ég bara spyr hæstv. ráðherra að þessu á meðan hann hlær hér í sæti sínu. Ég man ekki eftir að þessum áhrifum hafi verið lýst með neinum þeim hætti að þingmenn gætu glöggvað sig á þeim þannig að það hefði áhrif á afstöðu þeirra til frumvarpsins á sínum tíma. Ég vona að hæstv. ráðherra líti til þess.

Annað sem hefur komið í gegn í þessari umræðu er að allir þingmenn, að ég held, sem hér hafa talað eru sammála um nauðsyn þess að fram fari úttekt á áhrifum þessarar lagasetningar því eins og hv. þm. Elín Anna Gísladóttir sagði hér áðan þá eru áhrifin af þessu þau að okkar yngstu börn í skólakerfinu njóta verri þjónustu en áður en til þessa verks var gengið. Ég fagna því auðvitað mjög að hæstv. ráðherra finnist þetta gamanmál en mörgum okkar hér í salnum þykir þetta heldur alvarlegt. Það blasir auðvitað við ástandið í mönnun leikskólanna. Alls staðar er mönnunarvandi í leikskólunum, nema reyndar samkvæmt nýjustu fréttum í Reykjavík þar sem allt í einu þarf að fækka leikskólakennurum. Það voru óvæntar fréttir en ég held að þær séu ekki í neinu samhengi við raunheima og reikna nú með að þær fréttir verði bornar til baka á næstu dögum.