Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 25. fundur,  7. nóv. 2022.

Reynslan af einu leyfisbréfi kennara, ólík áhrif á skólastig.

[16:30]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu sem mér hefur fundist vera um margt mjög góð. Heilt yfir vil ég segja að ég held að það sé í það minnsta orðið ljóst að þessi breyting var jákvæð þegar kemur að því að efla ásókn í kennaranám, hvort sem það er í leikskólakennaranám eða annað. Eins og ég sagði hér áðan voru fjórir einstaklingar sem útskrifuðust af menntavísindasviði HÍ fyrir þremur árum en voru síðasta vor milli 70 og 80. Í annan stað vil ég segja, af því að hér var minnst á hæfnisramma og endurmenntun og fleiri þætti, að þessi nýju kennaralög, eins og ég vitnaði til í framsöguræðu minni, fólu ekki bara í sér eitt leyfisbréf. Það voru líka gerðar breytingar varðandi hæfnisrammann og sú reglugerð hefur síðan verið unnin í góðu samráði og er að komast í birtingu núna. Þar er m.a. kveðið á um starfsþróun. Samhliða var Menntafléttan sett upp sem hefur sýnt sig að er mikil þörf fyrir, út í grasrótinni og meðal þeirra sem eru að vinna með börnunum okkar í menntakerfinu, það er mikil þörf fyrir að við þjónustum skólakerfið betur en við höfum verið að gera. 1.200 einstaklingar, 1.200 kennarar hafa farið í gegnum þetta. Allt er þetta hluti af því sem við þurfum að efla samhliða.

Það sem skiptir mestu máli til framtíðar er hvernig við tökum utan um leikskólastigið okkar. Þar geld ég ákveðinn varhuga við því að horfa á patentlausnir, einfaldar lausnir sem felast í því að stytta leikskólakennaranámið og þá verði bara allt frábært. Það er ekki framtíðarlausn þegar kemur að þessu skólastigi. Við þurfum að taka miklu þéttar utan um það, virkja alla aðila, forsvarsmenn fæðingarorlofs, atvinnulífs, sveitarfélaga og ríkis. Það erum við að undirbúa núna og er liður í því að fókusera meira á leikskólastigið í íslenskum stjórnmálum en við höfum verið að gera (Gripið fram í.) því á undanförnum árum hefur ríkisvaldið ekki verið að gera það. (Forseti hringir.) Ég er ánægður að heyra hér sveitarstjórnarfólk og fulltrúa kalla eftir því beinlínis að ríkið geri það (Forseti hringir.) vegna þess að það er það sem ríkisstjórnin er að undirbúa og ætlar að gera.