Bráðabirgðaútgáfa.
153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

jöfn tækifæri til afreka.

291. mál
[16:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég beini hér tveimur fyrirspurnum til hæstv. mennta- og barnamálaráðherra undir yfirskriftinni: Jöfn tækifæri til afreka. Fyrri spurningin lýtur að því hvað ráðuneytið hafi gert til að tryggja jöfn tækifæri trans barna og ungmenna til að iðka íþróttir og þar með að vinna til afreka á því sviði. Við vitum jú öll að það skiptir máli að börn geti tekið þátt í íþróttum frá unga aldri og þó svo að það sé auðvitað ekkert útilokað að verða afreksmaður í íþróttum þrátt fyrir að hafa byrjað iðkun seint þá held ég að flestir viti að það er kannski líklegra ef fólk getur iðkað íþróttir frá unga aldri.

Við erum samfélag sem leggjum mikla áherslu á að börn geti stundað tómstundir og þar á meðal eru íþróttirnar mjög mikilvægar. Mér er fullkunnugt um að ÍSÍ hefur gert bækling um trans börn og íþróttir og það er mjög jákvætt og gríðarlega mikilvægt að íþróttaþjálfarar og íþróttahreyfingar hafi þann efnivið. Við vitum að það þarf að huga að ýmsu til að tryggja að trans börnum líði vel í íþróttastarfi og hluti af því er að tryggja að íþróttaþjálfarar og íþróttahreyfingar taki vel á móti börnum en einnig að búningsaðstaða þeirra sé tryggð svo að vel sé. Inn í þetta spilar svo að mínu viti það sem gerðist hér fyrir einhverjum mánuðum þegar Alþjóðasundsambandið setti nýja stefnu og umdeilda þar sem trans sundfólki er gert að vera í sérflokki þegar kemur að sundi. Það er raunar í andstöðu við þau viðmið sem Alþjóðaólympíunefndin hefur sett um þátttöku trans fólks. Börn og ungmenni missa ekkert af svona umræðu og þess vegna skiptir það máli að heyra hvað hæstv. ráðherra er að gera í því að tryggja jöfn tækifæri barna og ungmenna til íþrótta.

Ég ætla að koma að síðari spurningunni hér á eftir en hún lýtur að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks (Forseti hringir.) og hvað sé verið að gera þar varðandi hinsegin fólk og íþrótta- og æskulýðsstarf.