Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

jöfn tækifæri til afreka.

291. mál
[16:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég tek undir það með málshefjanda að það er gríðarlega mikilvægt að við sem samfélag gerum allt sem við getum til að trans börn og ungmenni hafi sömu tækifæri til að iðka íþróttir og vinna til afreka á því sviði. Þannig er háttað með stóran hluta af öllum stuðningi sem hið opinbera veitir til íþrótta- og æskulýðsstarfs að því er almennt streymt beint út, ýmist til sérsambanda eða æskulýðsfélaga, sem fara í samstarfi við ráðuneytið og fleiri með stefnumótunarvald þar. Ég nefni Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Það er nauðsynlegt að þeir sem koma að þessum málum geri átak í því að auka og efla tækifæri trans barna og ungmenna til að iðka íþróttir. Þar skipta viðhorf og viðbrögð jafningja auðvitað miklu máli.

Bæklingurinn sem hv. þingmaður minntist á, Trans börn og íþróttir, var gefinn út á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á árinu 2020. Honum var ætlað að auka vitund og gefa hagnýtar leiðbeiningar til allra þeirra sem koma að íþróttastarfi og starfa undir Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, sem eru nánast allar íþróttir í landinu.

Þingmaðurinn var líka að velta fyrir sér og spurði sérstaklega út í 8. aðgerð þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks fyrir 2022–2025, þar sem fjallað er um hinsegin börn og ungmenni í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Skemmst er frá því að segja að það gengur ágætlega við framkvæmdina sem unnin er í samstarfi við Samtökin '78. Þar er unnið að gerð samkomulags við samtökin um að semja og gefa út fræðsluefni um stöðu hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi með leiðbeiningum fyrir þá sem bera ábyrgð á slíku starfi. Hugsunin er að verkefninu verði lokið innan tímamarka sem sett eru, eða árið 2023, og markmiðið er að tryggja þátttöku og aðgengi hinsegin barna og ungmenna í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi. Til þess að svo geti orðið er óhjákvæmilega þörf á aðkomu allra sem að starfinu koma. Við erum í samtali við Samtökin '78 þessar vikurnar um að halda utan um þetta verkefni og í raun fleiri verkefni sem tengjast þátttöku þessara barna í íþrótta- og æskulýðsmálum.

Það má líka segja frá því að fyrir skemmstu var gefin út viðbragðsáætlun á vegum samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og hún var kynnt nú á föstudaginn. Henni er ætlað að gefa leiðbeiningar um hvernig best sé að bregðast við vegna atvika og áfalla sem upp geta komið í starfi íþrótta- og æskulýðsfélaga, auk þess sem þær leiðbeiningar innihalda ýmsar gagnlegar upplýsingar, m.a. um hinseginleika og fjölmenningu í félagsstarfi. Þessi viðbragðsáætlun hefur verið talsverðan tíma í undirbúningi og vinnslu og hún var unnin í samstarfi við stærstu regnhlífasamtök íþrótta- og æskulýðsfélaga hér á landi. Við reiknum með að embætti samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs muni í framhaldinu fara í kynningu á henni og samtal við öll íþrótta- og æskulýðsfélög í landinu um að fylgja henni eftir.

Til að ramma þetta aðeins inn vil ég segja: Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við séum framsækin í öllu því sem við gerum í þessum efnum en vinnum þetta um leið með grasrótinni sem er frá degi til dags að vinna með börnum og ungmennum í gegnum íþrótta- og æskulýðsstarf. Það er það sem við leggjum áherslu á. Við sjáum það með samskiptaráðgjafann og eins með Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Samtökin '78 — ég held að það sé heppilegra að stjórnvöld halli sér í áttina að þessum samtökum frekar en að gefa út einhverjar skipanir að ofan eða eitthvað slíkt. Það er það sem við leggjum áherslu á og það fjármagn sem við höfum til þessara mála fer í að styrkja þær stoðir sem eru að vinna í grasrótinni dag frá degi í þessum málum.

Annars vil ég þakka þingmanninum fyrir þessa fyrirspurn. Ég hlakka til að hlýða á og taka þátt í umræðum sem verða vonandi í framhaldinu.