Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

jöfn tækifæri til afreka.

291. mál
[16:54]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið og raunar þarf ég ekki að bera upp seinni spurninguna, hún bara stendur fyrir sínu í þingskjali. Hæstv. ráðherra svaraði henni. Jafnframt vil ég þakka hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson fyrir innlegg hennar í þessa umræðu og minna á þingsályktunatillögu hennar. Ég ætla að fagna því að ráðuneytið sé að vinna í samstarfi við Samtökin '78. Ég tel gríðarlega mikilvægt að þetta sé unnið þannig, enda þar um borð fólk sem hefur einna bestu þekkinguna og er mjög oft í beinum samskiptum við börn, foreldra og ungmenni sem reyna það á eigin skinni hvernig það er að taka þátt í íþróttastarfi. Mig langar líka að halda því til haga að ég tel mikilvægt að muna eftir húsnæðinu og búningsklefunum, því sem ekki snýr að samskiptum eða viðmóti íþróttaþjálfara. Þetta þarf hvort tveggja að haldast í hendur til þess að börnum líði vel í starfinu.

Að lokum vil ég segja: Það hefur orðið bakslag í málefnum sem snúa að réttindum hinsegin fólks og þá ekki síst trans fólks á alþjóðavísu en einnig hér á Íslandi. Ekki síst í því ljósi skiptir máli að við séum á tánum, þetta sé jafnvel haft í huga þegar unnið er að framkvæmd 8. aðgerðar í þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks. Við vitum að umræðan úti í samfélaginu getur haft áhrif á íþróttaþjálfara eins og aðra en auðvitað vona ég að svo sé ekki. Ég þakka hæstv. ráðherra aftur fyrir svarið.