Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:08]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um aðbúnað og réttindi nemenda. Mig langar að nota tækifærið og nefna hér að nýleg könnun sýnir að þriðjungur hinsegin ungmenna upplifir óöryggi í skólanum sínum, hefur upplifað andlegt og jafnvel líkamlegt ofbeldi og finnur fyrir sinnuleysi, m.a. af hálfu kennara. Því miður hefur jafnvel verið bakslag í þessum málum undanfarið og það er líka mjög skýrt að hinsegin ungmenni upplifa að leiðin til úrbóta sem er í boði sé námsefni og fræðsla sem sýnir hinseginleikann og sýni margbreytileikann og tryggir sýnileika þessara ungmenna, lífs þeirra og viðfangsefna. Það er alveg klárt að það er ekki nóg að kennarar sem hafa áhuga á þessu viðfangsefni séu til þess bærir að veita hinsegin ungmennum það sem þau þurfa í íslensku skólakerfi. Það þurfa allir kennarar að geta gert þetta. Íþróttakennarar þurfa að kunna þetta, stærðfræðikennarar, jarðvísindakennarar, allir kennarar ef hinsegin ungmennin okkar eiga að fá það út úr íslensku skólakerfi sem við viljum yfirhöfuð að ungmenni almennt fái.

Mig langaði, frú forseti, að leggja þetta inn í umræðuna hérna. Þetta er ekki góð staða og ég kalla eftir umbótum hér sem og umbótum á húsnæði.