Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:12]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þeim sem hafa tekið þátt í umræðu í tilefni þessarar fyrirspurnar. Ég verð að viðurkenna það að þetta var mjög kerfislægt svar hjá ráðherra en svo sem alveg ágætt að rekja stjórnsýsluferlið þegar kemur að þessum málum. En það breytir hins vegar ekki því að líkt og hér var komið inn á áðan þá virðist ytra matið ekki ná að taka til þátta sem skipta máli í þessu samhengi og ég heyrði það að mennta- og barnamálaráðuneytið getur falið innviðaráðuneytinu að skoða mál því stjórnsýslulega heyrir þetta undir það. Ég held að í samhengi við það sem segir að sé meginhlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins, þar sem aðbúnaður er sérstaklega nefndur, þá þurfi að skoða þetta fyrirkomulag nánar því að þó svo að stjórnsýslulega geti hlutir heyrt undir innviðaráðuneyti þá er ekki hægt að taka aðbúnaðinn, finnst mér, út úr hinni stóru umgjörð sem lýtur að skólamálum barna. Og kannski rétt í lokin þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra út í það hvort að hann eða hans ráðuneyti hafi falið innviðaráðuneytinu að grípa inn í eða grípa til einhverra ráðstafana (Forseti hringir.) vegna þeirra mála sem snúa að aðbúnaði og þá aðallega myglu og brunavörnum í skóla.