Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:14]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þetta og þessar umræður og segja að eðli máls samkvæmt er svarið svolítið kerfislægt vegna þess að við höfum ekki miklar heimildir til að stíga inn í þegar á leik- og grunnskólar eru annars vegar. Við höfum það gagnvart framhaldsskólunum en ekki gagnvart leik- og grunnskólunum og raunar hefur ríkt þegjandi pólitísk samstaða um það í íslensku samfélagi, allt frá 1994, að ríkið ætti ekki að skipta sér af grunnskólunum. Við höfum flutt þá yfir og við ættum bara að vera með eftirlit, svona í 20.000 fetum, jú, einhver samræmd próf, en við ættum ekki að skipta okkur af þessu. Þetta er altalað innan skólasamfélagsins, meðal sveitarfélaga og annarra.

Það sem við þurfum hins vegar að gera núna, og það er ákall eftir því, ekki bara hér í þingsal Alþingis eins og ég heyri, er að ríkið fari að stíga meira inn. Ríkisvaldið hefur ekki einu sinni haft mannafla til að gera það. Til að mynda gagnvart leikskólanum hefur íslenska ríkið verið með eitt stöðugildi til að sinna leikskólamálum, gagnvart grunnskólamálum kannski tvö stöðugildi, þá er ég að meina í ráðuneytinu. Það eru einhver mál sem hefur verið gripið inn í eftir þessu stjórnsýsluferli að því er ég best veit. Ég þekki það ekki nákvæmlega en það er þannig.

Við þurfum að auka eftirlit með öllum skólastofnunum. En við þurfum að vinna með sveitarfélögunum vegna þess að við erum þá að segja: Heyrðu, ríkið þarf að fara að halla sér fram og auka eftirlit með skólastigum en við þurfum á sama tíma líka að þjónusta skólakerfið og aðstoða þegar við erum að gera einhverjar athugasemdir. Í dag höfum við hrært þessu svolítið saman og m.a. hjá Menntamálastofnun hefur þessu verið hrært saman þar sem eftirlit, stjórnsýsla og vísir að þjónustu er. Hjá ráðuneytinu hefur ekki verið þjónusta en við höfum verið með eftirlit og þjónustu gagnvart framhaldsskólunum. Þetta eru breytingarnar sem við erum að undirbúa að ráðast í. Hluti af því þarf að vera aukið eftirlit og samhæfing á milli skóla, skólastiga en við (Forseti hringir.) þurfum líka að auka þjónustuna vegna þess að það er ekki nóg að segja bara: Þið verðið að breyta hlutunum. (Forseti hringir.) Við þurfum að aðstoða stofnanir við að breyta þeim. — Afsakaðu, forseti, ég fór yfir tímann en ég þakka fyrir þessa góðu umræðu.