Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

eftirlit með menntun, aðbúnaði og réttindum barna í skólum.

293. mál
[17:19]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Aðeins um fundarstjórn forseta — ég er mjög ánægður með fundarstjórn forseta, svo það sé sagt í þessum sal. Ég ætlaði bara rétt að lauma því inn áður en ég fjalla aftur um fundarstjórn forseta að ég er líka sammála hv. þm. Eyjólfi Ármannssyni um mikilvægi þess að ríkisvaldið axli sterkari ábyrgð þegar kemur að leik- og grunnskólum. En það eina sem ég er óánægður með við fundarstjórn forseta og geri kannski athugasemdir við er að mér finnst fundarstjórn forseta vera þannig að maður hefur oft fengið að tala aðeins lengur inn í rauða ljósið heldur en núna hjá hæstv. forseta. En ég skil það og ég mun reyna í síðustu fyrirspurninni að fara ekki inn í rauða ljósið.