Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

lyfsala utan apóteka.

174. mál
[17:36]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Á síðasta ári tóku gildi ný lyfjalög. Lögin eru ansi viðamikil en gerð var ein stórgóð breyting á fyrirkomulagi lyfsölu þegar veitt var undanþáguheimild til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum þar sem ekki er til staðar apótek. Það eina sem gerir þessar verslanir frábrugðnar öðrum almennum verslunum er sem sagt þessi fjarlægð þeirra frá apóteki. Nú eru 13 almennar verslanir sem hlotið hafa þessar undanþáguheimildir dreifðar um allt land. Það er mikilvægt að halda því til haga að aðrar verslanir sem eru innan fjarlægðarmarka frá apótekum hljóta ekki síður að vera færar um að tryggja rétta meðferð, gæði og öryggi lyfja. Lyfjastofnun heldur utan um þetta fyrirkomulag og birtir á heimasíðunni lista af lyfjum, styrkleika og pakkningar sem heimilt er að selja. Það eru einhver þrjú virk innihaldsefni sem er núna heimilt að selja í almennum verslunum.

Þar sem bráðum verða um tvö ár frá þessari breytingu er tímabært að fá upplýsingar um það hvort undanþáguheimildin til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum hefur gefið góða raun. Þá hefur gagnrýni á bætt aðgengi að lausasölulyfjum að einhverju leyti snúist um aukna áhættu á misnotkun lyfjanna. Því langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort misnotkun á lausasölulyfjum hafi aukist frá því að lögin tóku gildi og ef svo er hvort hægt sé að rekja þá auknu misnotkun til sölu tiltekinna lausasölulyfja í almennum verslunum.

Að lokum verð ég að fá að nýta ferðina til að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hver afstaða hans er til að heimila fleiri almennum verslunum sölu tiltekinna lausasölulyfja sem hlotið hafa undanþágu. Er ekki tímabært að heimila sölu lyfja í almennum verslunum um allt land til að tryggja aðgengi að nauðsynlegum lyfjum, auka samkeppni og þannig lækka verðið á lyfjunum? Með því má líka ná að bæta heilbrigðisþjónustu með tiltölulega einföldum hætti.