Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 26. fundur,  7. nóv. 2022.

lyfsala utan apóteka.

174. mál
[17:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Berglind Ósk Guðmundsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið sitt og öðrum hv. þingmönnum fyrir að taka þátt í umræðunni. Það er mjög ánægjulegt að það hafi verið tekið jákvætt í málið hér. Ef við förum aðeins yfir svör hæstv. ráðherra þá fór hann m.a. yfir meirihlutaálit hv. velferðarnefndar sem starfrækt var á síðasta kjörtímabili. Það var gott mál að það voru skref tekin þarna, hófleg skref til þess að auka aðeins aðgengi að þessum nauðsynlegum lyfjum og voru færð svona frekar íhaldssöm rök fyrir því. Allt í góðu. Ég persónulega skil bara ekki af hverju við heimilum ekki öllum verslunum að selja lausasölulyf sem allir mega kaupa. Þú þarft ekki lyfseðill. Hægt er að setja því svo bara eðlilegar skorður og eðlilegar kröfur á þá sem selja þessar vörur og hversu mikið magn þú getur keypt, aldur, staðsetningu í verslun, hvaðeina. Þetta snýst nefnilega ekkert síður um jafnræði verslananna. Eins og hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir kom fram með þá hef ég lagt fram frumvarp til breytinga á lyfjalögum og ég saknaði þess að heyra afgerandi afstöðu hæstv. heilbrigðisráðherra og ætla að fá að kalla eftir því í síðara svari hans.