Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Nokkur umræða hefur verið í samfélaginu og fjölmiðlum um það að hælisleitendum var vísað brott frá landinu til Grikklands og það vinnulag sem lögreglan viðhafði hefur verið gagnrýnt. Auk þess hefur verið gagnrýnt hér úr þessum stól að það sé yfir höfuð hæft að senda hælisleitendur, sem hafa fengið synjun sinna erinda á Íslandi, til Grikklands. Ég hef áður nefnt undir þessum lið að ég hef skoðað flóttamannabúðir í Grikklandi og spurst sérstaklega fyrir um það hvort aðstæður í Grikklandi væru slæmar, og hvort það væri í raun og veru ekki forsvaranlegt að senda hælisleitendur þangað til baka. Framkvæmdastjóri stofnunar Sameinuðu þjóðanna um málefni farandfólks, eða IOM, sagði að flóttamannabúðir í Grikklandi stæðust evrópska staðla. Ég verð að segja, frú forseti, að eftir að ég skoðaði þessar flóttamannabúðir í Grikklandi þá er ég þess fullviss að það sé ekkert að því að senda fólk til baka til Grikklands sem hefur fengið þar vernd. Þeir aðilar sem þar eru og búa í þessum flóttamannabúðum búa við mannsæmandi aðstæður að mínu mati. Auk þess er sérstaklega gert ráð fyrir því að þar sé fatlað fólk. Börn njóta þar sérstakra aðstæðna, þar er leikskóli og börn sækja gríska skóla, eru sótt í skólabíl o.s.frv. (Forseti hringir.) Aðstæðurnar eru ágætlega mannsæmandi og mér finnst rétt að það komi fram vegna þess að margt sem hefur verið sagt hér um það að senda flóttamenn til baka til Grikklands er hreinlega rangt.