Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Í dag, 8. nóvember, er dagur gegn einelti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum það mikilvæga mál hér í störfum Alþingis. Eins og ég hef sagt áður í þessum ræðustól þá skiptir miklu máli í hinum fjölbreyttu, félagslegu málum, þar sem við tökumst á, að það sé frelsi til úrræða, að það góða fólk sem við höfum í okkar samfélagi og hefur lausnir og þekkir áskoranir eins og einelti er fái að koma fram með sínar lausnir og fái tækifæri til að bjóða upp á þær og þróa þær og það sé samanburður í gangi á því hvernig það gengur.

En ég held að það sé ekki síður mikilvægt að við ræðum aðgerðir gegn einelti hér af því að hluti af aðgerðunum er vinátta og samtal og annað um þetta efni. Þar held ég að við í þessum sal sem og aðrir sem taka þátt í opinberri umræðu, hvort sem er í fjölmiðlum eða annars staðar, ættum að tileinka okkur heiðarlegt og virðingarvert tungutak en vera ekki alltaf með sleggjudóma og ýmis ljót orð um náungann, sem maður heyrir oft. Ég er ekki að segja að við stjórnmálamenn verðum fyrir einelti, en það sem stundum er sagt um okkur, þegar okkur eru gerðar upp skoðanir í fjölmiðlum af samherjum eða öðrum, er oft ekki til eftirbreytni. Þetta er oft rót vandans. Eins og einhver sagði þá læra börnin það sem fyrir þeim er haft. Við skulum hafa það í huga í störfum okkar og standa öll gegn einelti. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)