Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Stefán Vagn Stefánsson (F):

Virðulegur forseti. Mig langar að nýta þessar tvær mínútur sem ég hef í dag til að ræða aðeins um orkumál og möguleika okkar hér á landi til að verða leiðandi í orkuskiptum á meðal ríkja heimsins. Aðstæður á Íslandi eru með þeim hætti að tækifæri til að verða leiðandi eru svo sannarlega fyrir hendi og það er okkar hér að nýta þau. Stríð í Evrópu og sú staða sem skapast hefur í orkumálum Evrópu hefur ýtt við okkur hér á landi til að skoða og meta möguleika okkar til að ná fullri sjálfbærni er kemur að orkuþörf þjóðarinnar. Sú staða sem Ísland er í nú er eftirsóknarverð og á eftir að verða enn þá eftirsóknarverðari á komandi árum. Sjálfstæði þjóða er m.a. metið út frá sjálfbærni er kemur að fæðu og orku. Á þessum sviðum eru Íslendingar svo sannarlega með forskot á aðrar þjóðir sem við verðum og eigum að nýta.

Ekki er hægt að ræða um orkumál í stóra samhenginu án þess að fjalla um loftslagsmál og loftslagsmarkmið stjórnvalda í dag. Ísland og Noregur taka þátt í sameiginlegu markmiði með Evrópusambandinu um að draga úr losun um 40% fram til ársins 2030 miðað við árið 1990. Samkvæmt stjórnarsáttmála verða sett sjálfstæð landsmarkmið um 55% samdrátt í losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir sama tímabil og því markmiði sem ríkisstjórnin hafði sett um jarðefnalaust Ísland árið 2050 verður flýtt til 2040. Öllum ætti að vera orðið ljóst að orkuskipti kalla á aukna orku. Ef skoðaðar eru spár og spálíkön má gera ráð fyrir að við þurfum um 100 MW á næstu 20–30 árum. Möguleikarnir til að nálgast slíka orku eru til staðar en ljóst er að ráðast þarf í aðgerðir til að nýta þá orku sem fyrir er betur og auka samhliða orkuöflun.

Virðulegur forseti. Við þurfum að bretta upp ermar þegar kemur að orkuskiptum hér á landi. Fyrir liggur að ráðast þarf í gríðarlega uppbyggingu innviða svo að markmið sem við höfum sett okkur sjálf geti náð fram að ganga.