Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

heimsþing kvenleiðtoga í Hörpu.

[14:39]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Ingu Sæland, það er mjög undarlegt að það sé verið að hvetja helming þingheims, alla kvenþingmenn þjóðarinnar, til að mæta á alþjóðafund kvenleiðtoga í heiminum í Hörpu, ráðstefnu sem er þar núna, og á sama tíma eru þingfundir í gangi og nefndastörf. Ég vil minna á það líka að í síðustu viku var enginn þingfundur þegar þing Norðurlandaráðs var í Helsinki og hluti þingmanna var ekki á svæðinu. Þá var enginn þingfundur en núna eru þingfundir þegar verið er að hvetja þingmenn til að taka þátt í þessum merkilega fundi. Þá voru sérstakar aðstæður og þá var ekki heldur heimild til þess að mæta á þingfund með fjarfundabúnaði þrátt fyrir sérstakar aðstæður. Ég tek eindregið undir með hv. þm. Ingu Sæland, þetta sýnir að ég held að ef það væri alheimsfundur karlleiðtoga í heiminum þá væri sjoppunni örugglega lokað og enginn þingfundur. Það var a.m.k. gert þegar Norðurlandaráðsþing var og þangað mætti bara hluti þingmanna.