Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

óréttmæti málshöfðunar Alþingis gegn ráðherrum og afsökunarbeiðni.

215. mál
[15:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta mál og styð það heils hugar. Landsdómsmálið svokallaða hafði slæm áhrif á íslenska stjórnmálastétt á sínum tíma og skildi eftir sig sár sem seint hafa gróið. Í kjölfar bankahrunsins haustið 2008 skipaði Alþingi, eins og við þekkjum, rannsóknarnefnd sem komst að því vorið 2010 að ráðherrar hefðu sýnt af sér vanrækslu. Meiri hluti þingmannanefndar, sem skipuð var til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar, komst að þeirri niðurstöðu að leiða bæri fjóra ráðherra fyrir landsdóm. Eins og við þekkjum varð niðurstaða Alþingis hins vegar sú að ákæra aðeins einn, fyrrverandi forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og niðurstaða Alþingis var mjög umdeild. Þar með breyttist málið í flokkspólitísk átök og varpaði ljósi á veikleika í lögunum um landsdóm. Niðurstaðan varð síðan sú að Geir H. Haarde var sakfelldur fyrir að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.

Þótt Geir H. Haarde hafi verið sýknaður af alvarlegustu ákæruatriðunum og ekki gerð refsing undi hann sakfellingunni, fyrir að hafa ekki haldið ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni, illa og skiljanlega. Í framhaldi kærði hann málið til Mannréttindadómstóls Evrópu. Bankahrunið hafði alvarlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag eins og við þekkjum öll, en Alþingi ákvað hins vegar að ákæra aðeins einn mann, Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir vanrækslu í starfi og fól saksóknara Alþingis að sækja málið fyrir landsdómi. Pólitískum skyldum stjórnmálamanna var því miður ekki haldið aðskildum frá saknæmu athæfi.

Frú forseti. Ákæra í dómsmáli þarf að byggja á faglegu og yfirveguðu lögfræðilegu mati. Í landsdómsmálinu eru önnur sjónarmið dregin inn í það mat. Milli lögfræði og pólitíkur verður að skilja. Það var því miður ekki gert þegar landsdómur var kallaður saman í fyrsta sinn. Það gefur augaleið þegar fjórir tilteknir þingmenn Samfylkingarinnar greiddu atkvæði með því að ákæra Geir H. Haarde en gegn því að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem var utanríkisráðherra í aðdraganda bankahrunsins og hinn leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Dómur landsdóms var m.a. harðlega gagnrýndur af einum af nefndarmönnum í laganefnd Evrópuráðsins, þingmanni kristilegra demókrata í Hollandi. Þingmaðurinn sagði m.a. að tilraunin til að láta sakfella Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, sé dæmi um þá eitrun sem verði í andrúmslofti stjórnmála þegar pólitískar aðgerðir eru gerðar að glæpsamlegu athæfi án þess að hafa réttlætið til hliðsjónar. Evrópuráðið sendi síðan frá sér ályktun þar sem hvatt er til þess að stjórnmálamönnum sé hlíft við opinberum réttarhöldum vegna pólitískra ákvarðana. Óneitanlega var það mjög sérstakt að þáverandi formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsins skyldi skila sératkvæði þegar ályktunin var afgreidd úr nefnd og sérstaklega í ljósi þess að þingmaðurinn greiddi atkvæði á Alþingi með ákærunni á hendur Geir H. Haarde. Það ber þó að taka það fram að umræddur þingmaður greiddi síðan atkvæði með ályktuninni.

Ályktun Evrópuráðsins er í raun mjög merkileg og fékk kannski ekki nægilega athygli eins og hún verðskuldaði. Ályktunin lýsir fordæmingu á pólitískum sakamálaréttarhöldum þar sem fólk er ákært fyrir pólitískar ákvarðanir eða skoðanir. Ákæruliðirnir í landsdómsmálinu sneru að pólitískum mistökum. Ályktun Evrópuráðsins varar við því að stjórnmálamenn séu látnir svara til saka fyrir þau. Í mínum huga er alveg ljóst að þessi ályktun beinist að Íslandi þó svo að Ísland sé ekki nefnt þar sérstaklega á nafn.

Frú forseti. Ég tel mikilvægt að íslensk stjórnvöld láti sér landsdómsmálið að kenningu verða. Alþingi á ekki að hafa ákæruvald. Það á að skilja milli lögfræði og pólitíkur. Geir H. Haarde var ákærður fyrir minni háttar brot sem allir fyrirrennarar hans á ráðherrastóli höfðu einnig gert sig seka um. Athyglisvert viðtal birtist við Davíð Þór Björgvinsson árið 2013 þegar hann var að láta af störfum eftir níu ár sem dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Í viðtalinu kemur fram að landsdómsmálið hafi vakið sérstaka athygli hjá erlendum viðmælendum hans. Haft er eftir Davíð að mörgum hafi þótt til fyrirmyndar að pólitískir leiðtogar yrðu dregnir til ábyrgðar fyrir störf sín. Þegar kom að því að skýra út fyrir mönnum hvers vegna aðeins einn maður hafði verið ákærður og hann hafi á endanum verði fundinn sekur um að halda ekki fundi setti þá hljóða. Þeir gerðu sér síðan fljótlega grein fyrir því að málatilbúningur meiri hluta Alþingis í landsdómsmálinu gæti seint orðið öðrum ríkjum fyrirmynd um opna, ábyrga og lýðræðislega stjórnarhætti.

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir þessi orð. Ég vil að lokum þakka framsögumanni, hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fyrir að gefast ekki upp að flytja þetta mál hér. Ég verð að segja það að ég tek heils hugar undir með honum þegar hann sagði hér í sinni ágætu ræðu að þetta væri prinsippmál. Þetta er mál sem má ekki verða að fordæmi. Það er afar mikilvægt að nú verði þessi tillaga loksins tekin til afgreiðslu í nefnd og samþykkt hér á Alþingi.