Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[15:54]
Horfa

Flm. (Njáll Trausti Friðbertsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hugmyndin á bak við þetta enda er tillagan sett fram í tengingu við yfirlýsingu forsætisráðherra Norðurlandanna á fundinum 15. ágúst. Það kemur fram í greinargerð málsins:

„Í norrænu yfirlýsingunni segir meðal annars að viðnámsþróttur norrænu samfélaganna skuli efldur á friðartímum, í hættuástandi og átökum með „sameiginlegu stöðumati, samvinnu í allsherjarvörnum, hagvörnum og viðnámsþrótti gagnvart skaðvænlegum aðgerðum á borð við netárásir og fjölþátta ógnir.““

Grunnstefna NATO var samþykkt í júní í sumar og þá er einmitt verið að bæta því við inn í umræðuna hjá NATO að þetta snýst ekki bara um varnir í lofti, á sjó og á landi. Hinn stafræni heimur er orðið stórt svið innan varnarbandalagsins og svo skulum við ekki gleyma geimnum. Við erum að kynnast því núna, í stríðinu í Úkraínu, þegar við sjáum fréttaflutninginn þaðan, hvað það er farið að hafa gríðarleg áhrif á það stríð að ráða yfir þeirri tækni sem verið er að nýta þar.

Ég fagna jákvæðri aðkomu að málinu. Nú kemur það til okkar í utanríkismálanefnd, þar sem við sitjum nú nokkur hér. Ég vona að við getum þá tekið með skýrari hætti á ákveðnum þáttum þessa máls ef það er nauðsynlegt. Ég tel fulla samvinnu verða í því. Ég vona að við klárum þetta fyrir jól þannig að þetta verði á fjárlögum 2023.