Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

rannsóknasetur öryggis- og varnarmála.

139. mál
[16:11]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir framsöguna í þessu máli. Ég held að við sem sitjum í hv. utanríkismálanefnd eða erum áheyrnarfulltrúar þar séum eflaust öll á því máli að það veiti ekki af að við höfum aðgengi að betri fræðilegum upplýsingum um öryggis- og varnarmál og það er einmitt grunnurinn í þessari tillögu hv. þingmanns. Eins og komið hefur fram er svo sannarlega hægt að horfa á öryggis- og varnarmál frá mjög breiðu sjónarhorni, hvaða áhrif loftslagskrísan mun hafa á varnar- og öryggismál, fjölþátta ógnir og ýmislegt annað. Ég held að það sé eitthvað sem við getum svo sannarlega skoðað í utanríkismálanefnd og finna hvernig hægt væri að gera það. Reyndar er það alltaf gaman með stuttar tillögur eins og þessa, sem er einungis tvær línur, að það getur verið erfitt að koma öllu fyrir í breytingartillögum um þær.

Mig langar að nefna annað sem við þurfum líka að hafa í huga, og það er kannski meira svona hvernig þetta er sett upp, þ.e. að undir Alþjóðastofnun Háskóla Íslands í dag starfar þegar friðarsetur. Það er samstarfsverkefni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar og hefur það að markmiði að stuðla að þverfræðilegum og alþjóðlegum rannsóknum í friðar- og átakafræðum. Spurningin er hvort kannski ætti að víkka það starf út í stað þess að búa til nýja stofnun undir Alþjóðastofnuninni.

Almennt eru margir góðir punktar í þessari tillögu sem við þurfum að ræða vel. Ég veit að við munum gefa okkur tíma í utanríkismálanefnd, inn á milli þess sem við samþykkjum Evrópusambandsreglugerðir, til að ræða þessi mál og sjá hvernig við getum náð breiðum stuðningi þingsins í slíkum málum. Við lifum í breyttum heimi, ekki bara vegna stríðsins í Úkraínu heldur líka vegna loftslagskrísu og ýmislegs annars sem veldur því að við þurfum að hafa aðgang að sérfræðiþekkingu. Ég held að það sé upplagt að þessi tillaga komi á sama tíma og verið er að byrja að endurskoða þjóðaröryggisstefnuna. Þetta getur spilað á móti henni og tryggt að þingið og aðrir hafi góðan aðgang að sérfræðiþekkingu á þessu sviði.