Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

félagsráðgjöf í grunn- og framhaldsskólum.

113. mál
[16:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur fyrir þrautseigjuna, að gefast ekki upp. Það er víst okkar meginstef í stjórnarandstöðunni, aldrei að gefast upp þótt á móti blási. Ég er stoltur meðflutningsmaður á þessari góðu þingsályktunartillögu og það eina sem við getum gert er að halda áfram að berjast vegna þess að það er með hreinum ólíkindum að svona falleg tillaga hafi ekki löngu verið samþykkt. Ég veit ekki í rauninni hvað í veröldinni getur komið í veg fyrir það að börnin okkar séu aðstoðuð og þeim sé hjálpað til að þeim líði sem allra best í skólanum sínum. Hvernig stendur á því að við erum ekki komin með bæði fullkomna sálfræðiþjónustu fyrir börnin og í þessu tilviki félagsráðgjöf? Það er vitað að mjög mörg börn eiga bágt í samfélaginu, félagslega og alla vega. Við skulum nú ekki tala um það sem hefur komið í ljós, að þriðjungur t.d. drengja er að útskrifast með lélegan lesskilning eða er ólæs eftir tíu ára grunnskólagöngu og rétt um 20% stúlkna. Dettur nokkrum einasta manni í hug, hvað þá þessari ágætu ríkisstjórn, að þessum börnum líði vel þegar upp er staðið? Þau langar til að fara í framhaldsnám.

Ég man eftir því þegar ég var í fyrstu kosningabaráttunni minni og við vorum einmitt í heimsókn hjá framhaldsskólanemum. Þau söfnuðust saman úr öllum skólum, forsetar allra nemendafélaga ásamt nemendunum sjálfum, og við sátum í palli, þessir frambjóðendur ágætu, og sátum fyrir svörum. Það sem stakk mig mest af öllu og varð til þess að ég spurði hreinlega formenn nemendafélaga nokkurra að því hvort þetta væri rétt skilið hjá mér, með sálfræðiþjónustuna. Það sem stóð eftir var: Getið þið aðstoðað okkur við sálfræðihjálp eða félagslega hjálp af því að okkur líður mörgum svo illa í skóla? Þetta var fyrir fimm árum síðan. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir er að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu núna í fjórða sinn. Hún hefur í rauninni ekki alltaf mælt fyrir henni en hún fylgir henni áfram eftir og hún gefst aldrei upp frekar en við í Flokki fólksins. Þegar eru góð mál þá ber okkur skylda til þess að gefast aldrei upp þó að við mætum þeirri ótrúlega skrýtnu andspyrnu sem hæstv. ríkisstjórn virðist vera svo lagin við að berja okkur með utan undir sundur og saman daginn út og inn. En við erum stolt af því þó að fá að koma í þennan æðsta ræðustól landsins og fá að halda áfram að berjast fyrir góðum málefnum, berjast fyrir þá sem þurfa á hjálp okkar að halda og við munum aldrei gefast upp.