Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 27. fundur,  8. nóv. 2022.

fullgilding og lögfesting valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

49. mál
[17:16]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu sína. Hann kom ítarlega inn á það eins og framsögumaður, hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson, að búið er að samþykkja þingsályktunartillögu um fullgildingu á þessari valfrjálsu bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og í þingsályktunartillögu nr. 61/145 var meira að segja kveðið á um að það skyldi gert fyrir árslok 2017. Ég sé þarna ákveðið máttleysi æðstu valdastofnunar landsins, Alþingis Íslendinga, gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég velti fyrir mér og væri gaman að heyra skoðanir hv. þingmanns á því: Hvaða úrræði getur Alþingi beitt þegar ekki er farið að þingsályktunartillögu þess? Ég hef ekki skoðað það nákvæmlega en ég veit að fullgilding er framkvæmdarvaldsathöfn og það er ráðherra málaflokksins sem þarf að fullgilda bókunina, ég veit ekki hvort hægt er að skoða aðkomu Alþingis, eitthvað slíkt, en hvaða úrræði er eiginlega hægt að beita? Við erum að lenda í þessu trekk í trekk á Alþingi, ég er nú nýbyrjaður hérna. Við sjáum þetta t.d. varðandi ríkisborgararétt og önnur mál. Hvað er hægt að gera í svona málum? Hér er komin önnur þingsályktunartillaga sem hefur verið samþykkt. Það sem ég skil ekki er að nú vill hæstv. forsætisráðherra tengja sig við mannréttindi og hefur mannréttindamálin á sinni könnu, Mannréttindaskrifstofu, og þau eru ófá málin sem koma til allsherjar- og menntamálanefndar hvað það varðar en samt er ekkert gert í þessu máli sem lýtur að réttindum fatlaðs fólks og kæruheimildum þess til erlendra aðila. Íslendingar hafa sótt rétt sinn út fyrir landsteinana frá tímum Jóns Hreggviðssonar, liggur mér við að segja. En spurningin er þessi: Hvað getum við gert í málinu?