Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Friðjón R. Friðjónsson (S):

Virðulegi forseti. Síðastliðinn sunnudag lauk 44. landsfundi Sjálfstæðisflokksins, eins og flestum hér er kunnugt. Þar var ekki einungis kosið milli fólks í embætti heldur endurnýjuðum við Sjálfstæðismenn stefnu okkar í mikilvægum málaflokkum. Mig langar sérstaklega til að deila með þinginu og þjóðinni texta sem nú er stefna Sjálfstæðisflokksins í málefnum innflytjenda. Með leyfi forseta:

„Taka ætti vel á móti þeim sem vilja koma hingað til lands til að lifa og starfa. Mikilvægt er að tryggja öryggi erlends verkafólks og virða réttindi þeirra. Innflytjendur auðga bæði menningu og efnahag. Leyfa ætti fólki utan Evrópska efnahagssvæðisins, sem hefur fengið starf hér á landi og er með hreint sakavottorð, að koma hingað og starfa. Ísland ætti að sýna frumkvæði í því að bjóða fleiri kvótaflóttamönnum hingað.“

Þessi texti var samþykktur með nánast öllum atkvæðum á fjölmennasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins í sögunni og undir hann tek ég heils hugar. Það er því ástæða til að ítreka að Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir umburðarlyndi og að Ísland sé opið fyrir fólki sem kemur hingað með löglegum hætti.