Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:08]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Virðulegi forseti. Nú þegar þjóðarleiðtogar heims og heilu sendinefndirnar hittast í Kaíró í tengslum við COP-fundinn svokallaða varðandi loftslagsmál þá berast líka ýmsar fréttir því tengt er lúta að umhverfismálum og neyslu þjóða. Því ber að fagna hve fréttum af umhverfismálum og því álagi sem hin ágenga tegund maðurinn veldur á jörðina fjölgar, sér í lagi í íslenskum fjölmiðlum, og upplýsingarnar eru meiri um það hvað við göngum gegndarlaust á gæðin sem mannskepna, eins og ég hef reyndar nokkrum sinnum komið inn á í ræðum hér. Í næstu viku er því spáð að mannkynið nái því að verða 8 milljarðar, sem er töluverður fjöldi fólks. Sérfræðingar hafa jafnframt áhyggjur af neyslu og misskiptingu auðs í heiminum, þ.e. sum okkar neyta freklegar en önnur. Það er með öllu óréttlátt að velta skuldinni yfir á þá einstaklinga sem ekki bera sömu ábyrgð og við hin. Mig langar að nota tækifærið hér, hæstv. forseti, og vekja athygli á ágætri grein, talandi um mátt fjölmiðla, þar sem við erum hvött til að stunda nægjusemi í nóvember. Það er nú í tísku að vera með ákveðið átak í hinum og þessum mánuðum ársins en ég hvet hv. þingmenn að rifja upp nægjusemina því að hún var einu sinni talin hér til dyggða en er í rauninni nauðsynleg ef okkur á að takast að stemma stigu við þeirri óheillaþróun sem við okkur blasir.