Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 28. fundur,  9. nóv. 2022.

Störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Í fjárlagaumræðunni á dögunum hélt ég því fram að um 60.000 manns hefðu fyrir sex árum skrifað undir kröfu um að til heilbrigðiskerfisins yrði varið 11% af vergri landsframleiðslu. Þetta var ekki rétt hjá mér, þau voru 80.000 og rúmlega það sem skrifuðu undir kröfuna. Ef farið væri eftir 11% kröfunni frá árinu 2016 þyrftum við að bæta til heilbrigðismála tæpum 100 milljörðum kr. Nágrannaþjóðir okkar fjárfesta mun meira en við í heilsu og lífsgæðum fólks enda er það fjárfesting sem borgar sig. Við þurfum og eigum að hlúa að veiku fólki og umbuna þeim sem hafa helgað sig því starfi með mannsæmandi launum og mannsæmandi vinnutíma. Nú ríkir neyðarástand víða í heilbrigðiskerfinu okkar, starfsaðstæður eru óboðlegar á mörgum stöðum og biðlistar lengjast, fólk þarf að bíða dögum saman eftir tíma hjá heilsugæslunni og mönnunarvandinn vindur upp á sig.

Í upphafi þings sagði hæstv. fjármálaráðherra hróðugur að staðan í ríkisfjármálum væri mun betri en búist var við. Sú staða var ekki nýtt með fjárframlögum í fjárlagafrumvarpinu til að bæta heilbrigðiskerfið. Krafa er hins vegar gerð um að heilbrigðisstarfsfólk hlaupi hraðar, taki á sig enn meira álag og geri meira fyrir minna. Stóri vandinn á bráðamóttöku Landspítalans er skortur á hjúkrunarfræðingum. En ástandið er ekki bara slæmt á bráðamóttökunni í Reykjavík, það er líka slæmt á Suðurnesjum, á Suðurlandi og á Akureyri. Í morgun sagði hæstv. fjármálaráðherra frá því að komið hefði í ljós að staðan á ríkissjóði væri enn betri en gert var ráð fyrir þegar hann lagði fram fjárlagafrumvarpið. Heilbrigðiskerfið og velferðin verður að fá meira úr að spila á næsta ári ef ekki á illa að fara. Nýta verður betri stöðu einmitt til þess.